Lífið

Skíthræddur þegar höggið kom

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Fyrst þegar ég fór fannst mér eins og það kristallaðist í mér blóðið. Ég varð skíthræddur,“ segir Sveinn Ólafur Gunnarsson leikari þegar hann er spurður út í heilsuræktina. Kuldasjokkið varð þó ekki til að fæla hann frá sjósundinu heldur þvert á móti.

„Nú er svo komið að kuldahöggið í byrjun er mitt uppáhald. Þetta er svo kröftug stund,“ segir Sveinn, sem hefur farið tvisvar til þrisvar í viku í sjóinn í bráðum tvö og hálft ár. Hann fer þó ekki einn heldur syndir ásamt vini sínum, Hilmari Guðjónssyni leikara. Þeir nota tímann í sjónum til að ræða málin.

„Þetta er alveg dásamlegt. Sundið hefur einhvers konar heilandi áhrif á okkur og við getum talað saman um listina og fótboltann. Ég myndi kalla þetta „instant hugleiðslu“. Maður skilur allt eftir í landi þegar vaðið er út í og það er einmitt kuldasjokkið sem hreinsar burt allar áhyggjur heimsins. Eftir það er hugurinn hreinn og skýr. Við erum misjafnlega lengi í sjónum, það fer eftir árstíðum. Sjósundið er áhugaverðara á veturna, þá eru áhrifin sterkari,“ segir Sveinn en ítrekar þó að hann fari ekki einn í sjóinn.

„Ef ég er alveg sjúkur að komast út í bið ég einhvern að standa í fjörunni og horfa á eftir mér, þá bara til að veifa mér í kveðjuskyni, ef ég skyldi fá krampa. Pabbi gerir það stundum fyrir mig,“ segir hann kankvís. 

„Yfirleitt förum við Himmi tveir en þó höfum við synt með Sjósundfélaginu. Jóhann Pétur Harðarson leikari hefur líka slegist í hópinn. Hann hafði séð okkur striplast inn og út úr Neslauginni, þegar við vorum að fara í sjóinn við Gróttu, og vildi vera með,“ segir Sveinn og telur sjósundið hjálpa til við leikarastarfið. Það vindi ofan af stressinu. 

Hann stendur einmitt í ströngu þessa dagana en hann leikur í verkinu Eiðurinn og Eitthvað eftir Guðberg Bergsson, sem leikhópurinn GRAL sýnir í Tjarnarbíói. Hefur hann kannski þurft að henda sér oftar í sjóinn þess vegna?

„Nei, alls ekki,“ segir hann hlæjandi. „Æfingarnar hafa gengið mjög vel. Þetta er reyndar skemmtileg sýning fyrir leikara að sýna. Hún er svo lifandi og öðruvísi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.