Lífið

Sá ljón éta buffal

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Valgerður Birna Magnúsdóttir fór til Afríku í sumar.
Valgerður Birna Magnúsdóttir fór til Afríku í sumar. Mynd/Úr eInkasafni
Við sáum ljón éta buffal úr hjörð sem var að drekka úr vatnsbólinu við hótelið. Við sáum samt ekki þegar það veiddi hann, bara þegar það át hann. Svo sáum við fíla og gíraffa, sebrahesta og buffla og sjaldgæfasta stork í heimi! Ljónið var samt flottast."

 Þannig hefjast lýsingar Valgerðar Birnu Magnúsdóttur, sjö ára, á sumarfríi fjölskyldunnar, en hún ferðaðist um Suður-Afríku.

Ferðalagið hófst í Maputo, höfuðborg Mósambík, og endaði í Jóhannesarborg og ferðaðist fjölskyldan um 3.000 kílómetra í bíl. "Við keyrðum mjög, mjög lengi og sáum stundum strúta við veginn. Ég sá einn sofandi, með hausinn ofan í jörðinni."

 

Hvað var skemmtilegast í ferðinni? "Kruger-þjóðgarðurinn. Þar var mesti hiti sem ég hef verið í, 32 stig! Þá fór ég í sundlaugina á hótelinu en síðan beint undir teppi því hún var ísköld. Það var samt ekki alltaf glampandi sól en samt aldrei rigning, því það rignir bara á ákveðnum tíma í Afríku og við vorum ekki á regntímanum. Við sáum líka flóðhesta og antilópur en það eru milljón antilópur í Kruger-garðinum. Svo sáum við líka bleika flamingófugla, eins og eyjar úti í vatninu."

Sástu einhver skemmtileg skordýr? "Ég sá eitt stórt gult kóngafiðrildi og svo skoðuðum við líka termítaþúfu. Leiðsögumaðurinn gerði smá gat á þúfuna til að sýna okkur inn í. Þá varð ég smá hrædd um að termítarnir gætu étið mig! En þeir vildu það ekkert. Svo smakkaði ég guava-ís sem var mjög góður."

Kynntist þú krökkum í Afríku? "Við heimsóttum eitt barnaheimili þar sem krakkarnir eru mjög fátækir. Það var ein skóladeild og ein yngri deild og þau sem voru að fara í skólann voru einu ári yngri en ég. Við gáfum þeim penna. Svo fórum við í súperbolta með krökkunum, sem er næstum eins og fótbolti nema það er ekkert mark, sem er mjög skemmtilegt."

Skildirðu hvað krakkarnir sögðu? "Við þurftum ekkert að tala saman. Það var enginn dómari í leiknum og engar reglur. Við lékum okkur líka á ströndinni og ég á heilan lista yfir skeljarnar sem ég tíndi. Ég tíndi meira en fimmtíu skeljar. Við systir mín fórum með skeljarnar í bað og þá var allt í einu lifandi krabbi í einni skelinni. Við vildum ekki hafa hann í baðinu og pabbi fór með hann út í sjó."

Langar þig aftur til Afríku? "Já, en það verður samt ekki fyrr en eftir minnst sjö ár."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.