Skoðun

Heilbrigt rekstrarumhverfi – heilbrigt menntakerfi

Sigríður Ragna Birgisdóttir og Friðrik Olgeir Júlíusson og Ása Katrín Hjartardóttir skrifa
Umfjöllun fjölmiðla um fjármál Flensborgarskólans og annarra stofnanna í kjölfar athugasemda Ríkisendurskoðunar gefur tilefni til þess að útskýra og koma á framfæri upplýsingum er þetta málefni varðar.

Þeir sem fjallað hafa um fjármál stofnananna hafa ekki gefið sér tíma eða séð ástæðu til að afla sér upplýsinga um málið heldur er gefið í skyn að óráðsíu stjórnenda sé um að kenna. Því fer hins vegar víðs fjarri. Háttvirt þingkona Vigdís Hauksdóttir ber málefnið á borð í fjölmiðlum með upphrópunum og ákalli til ráðherra um að útskýra hvers vegna stjórnendum umræddra stofnana hafi ekki verið settur stóllinn fyrir dyrnar og þeir látnir sæta ábyrgð.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að starfsaðstæður stjórnenda ríkisstofnana, eins og Flensborgarskólans í þessu tilfelli, hefur verið gert ókleift að reka stofnunina hallalaust vegna úreltrar launastiku, meingallaðs excel-skjals og skólastefnu sem er í engu samræmi við þau fjárframlög sem skólinn fær til að sinna lögbundinni þjónustu sinni, s.s. eins og þjónustu við fatlaða nemendur. Inn í dæmið kemur líka hið margumtalaða verklega nám sem eykur fjölbreytni í námsvali nemenda, en Flensborgarskólinn er með eina slíka braut að hluta til sem er fjölmiðlabrautin.

Það sem margir vita ekki, en ættu að vita er að fjárframlög til skólans eru reiknuð út frá fjölda nemenda sem mæta í lokapróf. Skólanum er hins vegar gert að taka við öllum nemendum sem óska þess að hefja nám við skólann og þarf því skólinn að stofna til kostnaðar vegna þeirra. Fyrir þá nemendur sem heltast úr lestinni á miðri leið af ýmsum ástæðum fær skólinn því ekki greitt, þrátt fyrir að hafa stofnað til kostnaðar við nám þeirra. Það er ekki síst vegna þess að sumir skólanna þurfa að taka inn stærra hlutfall nemenda sem eru líklegri til að hætta en aðrir.

Það er því vert að íhuga hvort skólar geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og hvað þurfi til að svo verði. Gerð er krafa um að skólarnir þjónusti nemendur með alls konar sérþarfir, sem sumir skólar eiga að sinna en alls ekki allir. Þá er krafa um aukið námsframboð, meira verklegt nám og svo framvegis. Allt þetta kostar peninga. Erfitt er þó að standa undir þessum kröfum þegar skóli dregur á eftir sér áragamlan skuldahala sem m.a. stafar af hallarekstri Fiskvinnsluskólans sem var hluti Flensborgarskólans. Ekki hefur tekist að koma auga á dæmi um óráðsíu og þaðan af síður verið raunverulegur vilji af hálfu stjórnvalda til að leysa vandann.

Við þetta ástand verður ekki unað! Mikilvægt er að unnið sé að lausn vandans í þágu nemenda og góðrar menntunar og rekstrarumhverfi skólanna leiðrétt. Samkvæmt lögum eiga allir jafnan rétt til náms. Vill ríkisvaldið ganga gegn stjórnarskránni í þeim efnum með því að ganga enn frekar á rétt nemenda með áframhaldandi fjársvelti skólanna? Eða hafa stjórnvöld burði til að standa undir þeim fögru orðum sem höfð voru uppi um gildi menntunar í aðdraganda kosninga nú í vor og byggja upp menntakerfi fyrir alla?




Skoðun

Sjá meira


×