Skoðun

Í nærveru sálar

Karen Elísabet Halldórsdóttir skrifar
Sumt setur mann einfaldlega hljóðan. Við gerum okkur flest grein fyrir því að viss misskipting er veruleiki í okkar ágæta samfélagi. Sumir hafa það mjög gott og aðrir gætu haft það betra. Fjárhagsstaða heimila víða er í miklu uppnámi og enn fjölgar þeim sem þurfa að sækja sér aðstoð hjá Umboðsmanni skuldara.

Ég fór í sund núna um daginn sem er svo sem ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að í klefanum voru nokkrar smástelpur, ca. átta ára að koma úr sturtu. Ein þeirra æpti upp fyrir sig og sagði við vinkonuna; „OMG ertu með Iphone 5, vá æðislegt“. Mér er litið við þar sem að ég hef átt margar misvitrar samræður við 12 ára dóttur mína um tilgangsleysi svona dýrra tækja í höndum barna. Stúlkan heldur áfram; „ég á svona Iphone 4, sem er bara glatað!“. Þá dettur upp úr þriðju stúlkunni; „dísus, ég er bara með eitthvað LG drasl, langar geggjað í svona flottan síma!“. Þegar að þessu er komið er ég farin að stara á stúlkurnar, og sé að restin af stúlkuhópnum verður svolítið niðurlútur, og ein segir; „mamma mín á LG“ og þá enn önnur segir; „ég á ekki neinn síma“. Neyðarleg þögn tekur við í vinkonuhópnum og ég fer fussandi í sundið yfir þessum litlu sætu krílum sem vita ekki betur.

Þetta samtal ungra barna hefur setið í mér eftir að ég varð vitni að því. Eins og ég tók fram í upphafi þá vitum við að kjör okkar eru misjöfn og jafnvel verðmætagildi okkar enn ólíkara. Ég t.d. get alveg keypt dýran síma handa dóttur minni, en ég bara kýs að gera það ekki. Hins vegar fer það fyrir brjóstið á mér og ég velti fyrir mér hvert við erum að stefna þegar við kennum ekki börnum okkar um að aðgát skuli hafa í nærveru sálar. Það er nákvæmlega ekkert athugavert við það að geta veitt börnunum sínum dýra hluti sem þau lukkuleg spranga um með. Það er hins vegar ábyrgðarhluti og algerlega nauðsynlegt að kenna þeim að skilja það og virða að það búa ekki allir við sömu kjör.

Við lifum í afskaplega undarlegum heimi. Þar sem að gæðum er sannarlega misskipt á milli landa sem og innan þeirra. Efnishyggjan hefur meira og minna stjórnað vestrænum heimi á meðan fátækt og sultur einkennir önnur svæði. Símar og fatnaður er orðið að vissum stöðutáknum hjá krökkum, sem gerir misjafnar aðstæður fjölskyldna enn viðkvæmari og erfiðari. Við verðum að sýna samfélagslega ábyrgð á þeim aðstæðum sem við búum í en þar gildir einnig líka að kenna börnum okkar að virða umhverfið okkar sem er fallvalt og margbreytilegt.

Þessar litlu krúttsprengjur í sundinu vissu ekki betur, en samtal þeirra segir mér á að við byrjum aldrei nógu snemma að undirbúa börnin okkar að sýna samkennd og tillitsemi fyrir aðstæðum annarra sérstaklega á tímum efnahagslegra þrenginga.




Skoðun

Sjá meira


×