Skoðun

Ósamræmi höfuðborgarsvæðis

Pétur Ólafsson skrifar
Allt í kringum okkur eru bæjarfélög að glíma við alvarlegan fjárhagsvanda. Undanfarin ár hafa sveitarstjórnir þurft að hækka gjöld og draga saman í rekstri. Brátt förum við sem betur fer að sjá ljósið við enda ganganna og sveitarfélög geta aukið þjónustu sína á nýjan leik. Þá er að mínu mati kjörið tækifæri til að endurskoða þá þjónustu sem sveitarfélög veita með vissa samræmingu í huga, einkum stærstu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta snýst nefnilega ekki endilega bara um samkeppnishæfni sveitarfélaga og kapp þeirra til að laða til sín íbúa, eins og margir hafa haldið fram og er að mínu mati mikil einföldun. Fyrir flutningum liggja óteljandi ástæður og oft er það ekki þjónusta sveitarfélags sem ræður úrslitum. Þess vegna verða sveitarfélögin að tala meira saman með aukna samræmingu í huga vegna þess að það er í raun grundvallarréttur fólks að geta flutt á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu án þess að gríðarleg þjónustuskerðing blasi við þeim í nýju sveitarfélagi.

Munurinn sláandi

Höfuðborgarsvæðið er merkilegt fyrirbæri en þar er hægt að flytja sig um nokkra metra og blasir þá við manni nýr veruleiki. Tugir þúsunda króna á mánuði geta skyndilega fallið niður eða bæst við mánaðarreikninginn. Þetta getur ekki verið jákvæð þróun. Ég vil þó taka fram að ég er alls ekki að segja að öll þjónusta sveitarfélaga eigi að kosta eitt og hið sama. Alls ekki. Ég vil hins vegar taka einfalt dæmi af þessum ótrúlega mun sem ríkir milli sveitarfélaga.

Munurinn á dýrasta og ódýrasta sveitarfélaginu í leikskólagjöldum er allt frá 31% til 64%. Foreldra munar um það og skerðir þetta vissulega lífsgæði þegar flutt er frá ódýrasta yfir í það dýrasta. Þessi grein er skrifuð til að hvetja til umræðu án öfga og um leiðir til þess að ná að jafna eins og hægt er gjöld til íbúa milli sveitarfélaga. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga það skilið að stjórnmálamenn setji þá í fyrsta sætið og myndi sambærilega heild milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frekar en það sundurlyndi sem einkennt hefur sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu alltof lengi.

Flest eigum við það sameiginlegt að vilja búa í sveitarfélagi þar sem útsvari er stillt í hóf án þess að það bitni á þjónustunni. Að hægt sé að vera með börn á leikskóla og í grunnskóla án þess að það kosti offjár og að vita með vissu að farið sé með útsvarsgreiðslur manns á sanngjarnan og vandaðan hátt. Flutningur milli sveitarfélaga án fjárhagsáfalla hlýtur að vera hluti af þessari sýn.




Skoðun

Sjá meira


×