Skoðun

Bjartir í sumarhúsum stjórnmála

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Íslenskir vinstra megin við miðju-menn gengu margklofnir til síðustu Alþingiskosninga. Fjölmargir vildu sinn eigin stjórnmálaflokk, rétt eins og Bjartur forðum, sem kaus óbyggilegt heiðabýli frekar en vinnumennsku á betra býli. Í stað málamiðlana um menn og málefni og að freista þess að ná sameinaðir meiri áhrifum fengu þeir sem vildu sinn prívat flokk og sitja þar nú áhrifalausir. Hugsanlega má segja að þeir sem fyrir voru í vinstriflokkunum tveimur hafi ekki haft umburðarlyndi eða visku til að fá þessa óþreyjufullu flokkssprota til samstarfs. Gleymd var sagan um sundrungu vinstri manna á 20. öld eða sigra þegar þeir báru gæfu til að standa saman, eins og í Reykjavíkurlistanum 1994-2006 og við samruna fjögurra smáflokka við stofnun Samfylkingarinnar árið 2000. Gömlu mistökin voru endurtekin undir nýjum formerkjum.

Hægri flokkarnir Framsókn og Sjálfstæðisflokkur rétt mörðu að fá rúman helming atkvæða. Þeir sýndu fljótt sitt rétta eðli: Auðlindaendurgjald lækkað um 10 milljarða, hætt við tímabæra hækkun virðisaukaskatts á hótelgistingar, niðurskurður boðaður á móti og þrengt að námsmönnum með harðari afkastakröfum, sem stjórnvitringur úr Hruninu leiðir ásamt Sjálfstæðismönnum í stjórn LÍN. Aukin pólitísk áhrif á stjórn og dagskrárstefnu RÚV boðuð og margvíslegum þöggunaraðferðum beitt til að menn þar haldi sér á réttri pólitískri mottu. Ekkert bólar á efndum kosningaloforða til handa almenningi um skattkerfisbreytingar (Sjálfstæðisflokkur) eða tilfærslur (Framsóknarflokkur), sem áttu að stórlækka höfuðstól íbúðalána. Hvað þá áform Framsóknarmanna um afnám verðtryggingar. Eini ráðherrann sem sýnir viðleitni til að efna kosningaloforð sem nýtast almenningi er Eygló Harðardóttir velferðarráðherra.

Fram undan eru sveitarstjórnarkosningar. Flokkarnir vinstra megin við miðju eiga að skoða sem fyrst samstarfsmöguleika í sveitarstjórnarkosningunum, allt eftir aðstæðum í hverju sveitarfélagi. Hvar er skynsamlegt að bjóða fram saman, mynda kosningabandalög o.s.frv.?

Árið 1985 stofnaði hópur ungs fólks úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi, Bandalagi jafnaðarmanna og Kvennalista, ásamt vinstrisinnuðum framsóknarmönnum, Málfundafélag jafnaðarmanna, sem hafði að markmiði að þrýsta á samstarf og/eða sameiningu flokkanna. Síðar urðu til Gróska og Röskva sem höfðu svipuð markmið. Er aftur kominn tími slíkra samtaka?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×