Skoðun

Maður ávinnur sér virðingu og hrós

Hallgrímur Georgsson skrifar
Ég skora á umboðsmann Alþingis, heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra að taka höndum saman og uppræta þá spillingu sem hefur fengið að blómstra innan stjórnsýslu heilbrigðismála undanfarinn áratug eða svo. Það eru tugir sjúklinga og aðstandenda þeirra sem eru fastir í kerfinu og bíða úrlausnar ykkar. Margt af þessu fólki er óstarfhæft vegna ástandsins sem skapast hefur. Orsök þessa vanda er að heilbrigðisráðherrar í gegnum tíðina hafa ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem þeir eru kosnir til.

Landlæknisembættið og sá hluti ráðuneytisins sem tengist því er algjörlega hætt að virka eins og það á að gera samkvæmt lögum. Þeir sem þar starfa virðast löngu búnir að gleyma hlutverki sínu gagnvart almenningi og því eftirliti sem þeir eiga að viðhafa innan heilbrigðisþjónustunnar. Í dag er þeirra helsta markmið að búa til fleiri sjúklinga með hegðun sinni og ákvörðunum. Kannski ekki að fullu meðvitað en þeirra aðalvinna virðist eingöngu vera að stinga kvörtunum og kærum undir teppið til að vernda oft og tíðum vanhæfa og illa starfandi lækna. Slíkt kemur öllum í vandræði og að lokum hrynur kerfið.

Tíu ára barátta

Mikilvægt er að hafa í huga að meirihluti lækna fær aldrei á sig kvörtun eða kæru. Hlúum að þeim sem gera vel og viðurkennum að mistök munu alltaf verða í þessum geira eins og öðrum. Það munu einnig alltaf verða einhverjir sem vanrækja sjúklinga eða viðhafa ótilhlýðilega eða skemmandi hegðun. Því er þjóðhagslega hagkvæmara og ódýrara að leggja niður kvörtunardeildir þessara embætta og í leiðinni koma strax til móts við þarfir sjúklinga í stað þess að láta þá standa í allt að tíu ára baráttu um nokkrar krónur eða uppreisn æru. Látið verkin tala og sýnið að ykkur er alvara því enginn ávinnur sér virðingu og hrós fyrir störf sín nema eiga það skilið svo ég umorði skilaboð Magnúsar Guðmundssonar, formanns félags forstöðumanna ríkisstofnana, til almennings í Fréttablaðinu 2. ágúst sl.

Gerið upp fortíðina

Ég skora því á þessa yfirmenn stjórnsýslunnar að gera upp fortíðina. Kerfiskarlar og -kerlingar þurfa að læra af mistökum sínum eins og aðrir. Til þess þarf að rannsaka kvörtunar- og kærumál sem borist hafa landlæknisembættinu nokkur ár aftur í tímann. Takið út þennan hóp sem hefur reynt að láta ykkur vita í gegnum tíðina og sjáið hvað fór úrskeiðis. Sjúklingar og aðstandendur eru ekki að leita að sökudólgum eða einhverjum til að hengja eins og landlæknir heldur fram. Kannið í leiðinni öll vensla- og hagsmunatengslin sem á sama tíma hafa myndast milli ráðuneytisins, landlæknisembættisins og til dæmis Landspítalans.

Ég hef í rúm fjögur ár verið „pennavinur“ stjórnsýslunnar og reynt að átta mig á af hverju kerfið þjappar sér saman þegar kvörtun berst til landlæknis. Nú er ég búinn að átta mig á þessu kerfi og mér hreint og beint blöskrar hvað þar er að gerast undir formerkjum „fagmennskunnar“. Það er nákvæmlega ekkert faglegt við það að hunsa og þagga niður jafn viðkvæm og erfið mál sem þessi. Vinsamlegast hættið að láta kerfið snúast um sjálft sig því lögin voru líklega ekki upphaflega smíðuð með það í huga. Eða hvað?




Skoðun

Sjá meira


×