Skoðun

Forgangsröðun í utanríkismálum

Baldur Þórhallsson skrifar
Tvær áleitnar spurningar vakna þegar utanríkisstefna nýrrar ríkisstjórnar er metin. Hver er forgangsröðunin? Hver mótar stefnuna?

Mest áhersla er lögð á þátttöku í málefnum norðurslóða í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar ef undan er skilið það hlé sem gert er á aðildarviðræðunum við ESB. Þar fyrir utan er lögð áhersla á að kanna möguleika á auknum útflutningi til fjarlægra heimshluta, styrkja tengsl við þessi svæði og gera fleiri fríverslunarsamninga.

Það er orðum aukið að Ísland geti orðið leiðandi afl á norðurslóðum og ekki er fyrirsjáanlegt að útflutningur færist frá mörkuðum Evrópu til Asíu á næstu áratugum, hvað þá á þessu kjörtímabili. Í dag fara yfir 80 prósent vöruútflutnings til ríkja á innri markaði ESB. Það vekur því sérstaka athygli að ekki er minnst einu orði á mikilvægi þess markaðar og þeirra tækifæra sem þar er að finna. En þekkt er að hagkvæmast er fyrir fyrirtæki í litlum ríkjum að sérhæfa sig í útflutningi til þekktra markaðssvæða þar sem þau hafa þegar starfsemi.

Þess er einnig saknað í stefnuyfirlýsingunni að ekki er kveðið einu orði á um það hvernig auka megi áhrif okkar innan EES og Schengen. Við munum því að óbreyttu halda áfram að taka gagnrýnislaust upp reglur ESB.

Seinni spurningin lýtur að því hvort ríkisstjórnin sé þegar orðin stefnulaust rekald í höndunum á forseta Íslands. Þá ályktun er ekki hægt að draga. Það er hins vegar augljós samhljómur með utanríkisstefnu stjórnarinnar og þeirri utanríkisstefnu sem forsetinn hefur rekið um nokkurt skeið. Það er líklega kostur, að minnsta kosti fyrir erlenda aðila, að nú tala ríkisstjórnin og forsetinn einum rómi.

Stefnuyfirlýsingin í utanríkismálum er nokkuð almennt orðuð. Það má gagnrýna en á sama tíma gefur það nýjum utanríkisráðherra tækifæri til eigin forgangsröðunar. Forgangsröðun er einkar mikilvæg fyrir lítil ríki sem hafa úr minna að moða en stór ríki. Það verður fróðlegt að sjá hvaða braut utanríkisráðherrann mun feta.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×