Innlent

Segja stefna í 14 milljarða gat í ríkisrekstri

Þorgils Jónsson skrifar
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu í gær endurmat á stöðu ríkisfjármála.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu í gær endurmat á stöðu ríkisfjármála. Fréttablaðið/Stefán
Afkoma ríkissjóðs á þessu ári gæti orðið allt að 14 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í fjárlögum vegna lægri tekna og meiri útgjalda. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í dag þar sem þeir kynntu niðurstöðu úttektar á stöðu ríkisfjármála.

Auk þess er hugsanlegt að ríkissjóður þurfi að afskrifa þrettán milljarða framlag til Íbúðalánasjóðs ef ekki rætist úr stöðu sjóðsins. Til að bregðast við þessari breyttu stöðu mun sérstök hagræðingarnefnd fara yfir allan rekstur ríkisins með það að markmiði að ná fram sparnaði. Hún mun taka til starfa á næstu dögum.

Að baki þessum breyttu tölum liggur að tekjur verði fjórum milljörðum minni en gert var ráð fyrir, meðal annars í ljósi lakari þjóðhagsspár þar sem gert er ráð fyrir minni hagvexti í ár en áður var spáð, 1,9% í stað 2,5%. Þá sé gert ráð fyrir því að fyrirhuguð sala eigna muni skila fjórum milljörðum minna en til stóð.

Á útgjaldahliðinni er gert ráð fyrir að umframgjöld í ríkisstofnunum verði um fimm milljarðar og ný verkefni sem þáverandi ríkisstjórn kynnti í aðdraganda kosninga, og eru ekki í fjárlögum, verði einn milljarður á árinu.





Þegar litið er lengra fram í tímann segja Bjarni og Sigmundur að útlit sé fyrir að áætlanir fyrir næsta ár séu á þann veg að ómögulegt verði að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum að óbreyttu, þar sem afkoma ríkissjóðs gæti orðið um 27 milljörðum lakari en ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir. 

Áætlanir hafa gert ráð fyrir því að jafnvægi yrði náð í ríkisrekstrinum á næsta ári og Bjarni vill ekki gefa það upp á bátinn. „Það verður mun erfiðara viðfangsefni en við ætlum ekki að gefa það frá okkur, svona í upphafi, heldur leggja áherslu á að öllum árum verði róið að því að halda við áætlun um að ná fram hallalausum fjárlögum. Það verður hins vegar að koma í ljós á næstu vikum hversu raunhæft það markmið er.“ 

Vinna við gerð fjárlaga næsta árs er að hefjast um þessar mundir en Sigmundur segir að ekki verði einblínt á niðurskurð. 

„Staðan er ekki sjálfbær eins og hún er núna og það mun ekki verða hægt að taka á þessum vanda eingöngu með því að skera niður.“ Áhersla yrði líka lögð á auknar fjárfestingar og örvun hagvaxtar.

"Eiga sjálfir eftir að lenda í þessu…“
Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að þessi framsetning ríkisstjórnarinnar á stöðu mála sé eilítið langsótt og þeir Bjarni og Sigmundur gangi nokkuð langt til að „fylla upp í yfirlýsingar“ sínar úr stjórnarmyndunarviðræðunum.

„Það er ekkert óvanalegt að stofnanir fari fram úr fjárheimildum, en þá er það hlutverk ráðuneytanna að grípa inn í í tæka tíð. Þeir eiga sjálfir eftir að lenda í þessu aftur og aftur á meðan þeir eru í ríkisstjórn.“

Varðandi tekjuhliðina segir Katrín að margt geti enn gerst fram að árslokum og rétt að spyrja að leikslokum. Til dæmis sé ekki útilokað að sala ríkiseigna geti náð yfirlýstum markmiðum.

Hún segir hins vegar að það skjóti nokkuð skökku við að á sama tíma kynni stjórnin frumvarp um breytingu á veiðigjaldi sem muni hafa í för með sér, samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytinsins, 3,2 milljarða lækkun í tekjum ríkissjóðs í ár og 6,4 milljarða á næsta ári.

„Mér þykir mjög sérstakt að menn tiltaki þetta ekki, en tíni hins vegar til nokkur hundruð milljónir sem setja á í tannlækningar barna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×