Innlent

Þorskkvótinn verður aukinn

Jóhann Sigurjónsson
Jóhann Sigurjónsson

Hafrannsóknastofnun leggur til að þorskafli verði aukinn úr ríflega 195 þúsund tonnum í 215 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Stofnunin kynnti í gær tillögur sínar um hámarksafla þrjátíu fiskistofna á næsta fiskveiðiári. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, segir í formála skýrslu stofnunarinnar að veiðihlutfall þorsks hafi á síðasta áratug lækkað úr 35 til 40% af stofni í um 20%. Þessi þróun hafi haft í för með sér að árgangar endist betur í stofninum og hann fari því vaxandi. Ljóst er að aukning þorskkvótans er nokkur búhnykkur fyrir íslenskt efnahagslíf.

Fljótt á litið gæti aukning þorskkvótans upp í 215 þúsund tonn skilað um 2 til 2,5 milljörðum króna í auknum útflutningstekjum á þessu ári og á næsta ári gæti aukningin numið 5,5 til 6,5 milljörðum miðað við núverandi þorskverð. Að teknu tilliti til aukins innflutnings aðfanga gæti hreint gjaldeyrisinnflæði aukist um allt að 1,5 milljarða á þessu ári og allt að 4 milljarða á því næsta. Aukin þorskveiði gæti því ein og sér valdið hagvexti upp á ríflega 0,3% varlega áætlað. Viðmiðunarstofn þorsks hefur stækkað um nær 55% á síðustu sex árum og mældist 1.173 þúsund tonn í byrjun árs. Hefur stofninn ekki verið jafn stór í þrjá áratugi.

Segir í skýrslunni að verði 20% aflareglunni fylgt áfram sé útlit fyrir að stofninn styrkist enn frekar. Þá geti aflamark verið komið upp í 250 þúsund tonn árið 2017. Aflareglan felur í sér að leyfa skuli veiðar á 20% af viðmiðunarstofni en raunar valda ýmsar viðbótarheimildir og tilfærslur milli ára því að veiðar geti vikið frá viðmiðinu. Hafró leggur til að aflamark ýsu verði 38 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári samanborið við 36 þúsund tonn á yfirstandandi ári.

Samkvæmt mælingum Hafró fer ýsustofninn þó minnkandi þar sem síðustu árgangar hafa verið litlir. Þegar kemur að öðrum helstu nytjastofnum leggur stofnunin til að leyfður ufsaafli verði 57 þúsund tonn samanborið við 50 þúsund tonn afla á yfirstandandi ári. Þá er gerð tillaga um 52 þúsund tonna hámarksafla á gullkarfa samanborið við 45 þúsund tonn í ár. Tillögur Hafró um aflamark annarra stofna eru flestar í takti við tillögur ársins í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×