Lífið

Leiða ferðamenn um Reykjavík á Segway

Sara McMahon skrifar
Hjónin Linda Björg Sigurjónsdóttir og Davíð Þór Þorvaldsson reka saman ferðaþjónustufyrirtækið Sway Reykjavík. Þau bjóða upp á ferðir um höfuðborgina á Segway-farartækjum.
Hjónin Linda Björg Sigurjónsdóttir og Davíð Þór Þorvaldsson reka saman ferðaþjónustufyrirtækið Sway Reykjavík. Þau bjóða upp á ferðir um höfuðborgina á Segway-farartækjum. Fréttablaðið/Anton

„Jú, viðbrögð fólks eru oft skrítin. Það kallar, bendir og tekur myndir. Mér þykir Íslendingar yfirleitt frekar rólegt fólk en svo er ekki þegar þeir sjá okkur,“ segir Davíð Þór Þorvaldsson, lögfræðingur og einn af stofnendum ferðaþjónustufyrirtækisins Sway Reykjavík.

Fyrirtækið býður upp á leiðsögn um höfuðborgina á Segway-farartækjum og er hið fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík. Davíð Þór og eiginkona hans, Linda Björg Sigurjónsdóttir, reka Sway Reykjavík ásamt foreldrum hennar, Sigurlaugu Sigurpálsdóttur og Sigurjóni P. Stefánssyni, og er fyrirtækið því sannkallað fjölskyldufyrirtæki.

Davíð viðurkennir að það hafi kostað töluverða fjármuni að koma fyrirtækinu á koppinn, enda eru Segway-tækin dýr í kaupum.

„Við erum með átta stykki, eitt fyrir leiðsögumann og sjö fyrir viðskiptavini. Leiðsögnin fer yfirleitt fram á ensku en við stefnum á að bjóða upp á leiðsögn á öðrum tungumálum bráðlega.“ Hjónin tóku á móti fyrstu viðskiptavinum sínum í mars og leiðir Linda nú nokkra hópa á dag um hjólastíga borgarinnar.

Spurður út í hugmyndina að fyrirtækinu segist Davíð hafa farið í svipaða ferð um Kaupmannahöfn í fyrrasumar. „Mér fannst þetta skemmtileg nýjung og hugmyndin að Sway Reykjavík varð til í kjölfar ferðarinnar.“

Leiðin sem farin er liggur meðal annars um Gróttu, Ægisíðu, Öskjuhlíð og Tjörnina og tekur hver ferð um tvær klukkustundir. Fjórtán ára aldurstakmark er í ferðirnar en Davíð segir tækin engu hættulegri en venjuleg reiðhjól.

„Ef eitthvað fer úrskeiðis stígur maður bara af tækinu,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.