Innlent

Pyntinganefnd gagnrýnir skort á atvikaskráningum

Litla-Hraun Pyntinganefnd Evrópuráðs setur út á ýmis atriði er varða fangelsi á Íslandi í drögum að skýrslu nefndarinnar sem var gerð hér á landi síðastliðið ár. Fréttablaðið/Stefán
Litla-Hraun Pyntinganefnd Evrópuráðs setur út á ýmis atriði er varða fangelsi á Íslandi í drögum að skýrslu nefndarinnar sem var gerð hér á landi síðastliðið ár. Fréttablaðið/Stefán

Fangelsismál Evrópuráðsnefnd gegn pyntingum gagnrýnir meðal annars að ekki hafi verið ákveðið að tilkynna alvarlegt atvik sem nýlega kom upp í fangelsinu á Akureyri til viðeigandi stofnunar.

Þá ógnaði fangi samfanga sínum með hnífi. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu nefndarinnar, sem var hér á ferð í september á síðasta ári.

Skýrslan er nú í umsagnarferli hjá íslenskum yfirvöldum. Nefndin gerði úttekt hjá lögreglunni á geðdeildum og fangelsum hér á landi. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að þar sem fanginn hafi ekki slasast hafi fangelsismálayfirvöld á Akureyri ekki aðhafst sérstaklega í málinu að öðru leyti en því að bjóða fórnarlambinu að leggja fram kæru.

Nefndin gagnrýnir þetta verklag og segir að tilkynna beri öll alvarleg atvik um ofbeldi á milli fanga til viðeigandi yfirvalda. Engar skráningar eru heldur til um atvik sem nefndin lítur alvarlegum augum. Þá var fangi á Litla-Hrauni í fyrra festur á grúfu á planka með hendur fyrir aftan bak í um tvo klukkutíma. Þar segir að fanganum hafi hugsanlega stafað hætta af meðferðinni, sér í lagi þar sem hann er að sögn asmaveikur.

Nefndin fer fram á tafarlausa rannsókn á atvikinu. Jafnframt kemur fram að hjúkrunarfræðingar sem starfa á Litla-Hrauni tilkynni ekki sérstaklega eða skrái þegar fangi leiti til þeirra eftir ofbeldi samfanga.

Hafi hjúkrunarfræðingar tjáð nefndinni að þeir yrðu varir við áverka á föngum eftir aðra fanga að meðaltali einu sinni í viku. Nefndin gagnrýnir að þrátt fyrir þessa vitneskju sé ofbeldið hvorki tilkynnt á viðeigandi staði né skráð í atvikaskrá, heldur einungis skráð í sjúkraskrá viðkomandi einstaklings.

Nefndin vill að verkferlar varðandi atvikaskráningar á Litla-hrauni verði endurskoðaðir og það tryggt að hvenær sem heilbrigðisstarfsfólk verði vitni að áverkum sé það tilkynnt til viðeigandi yfirvalda. Einnig vill nefndin að komið verði á fót miðstýrðri skráningu svo betur hægt sé að fylgjast með ástandi innan fangelsisins og koma í veg fyrir frekara ofbeldi. hanna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×