Lífið

Gatsby snýr aftur

Sara McMahon skrifar
Kvikmyndin The Great Gatsby er frumsýnd í kvikmyndahúsum annað kvöld. Myndin er byggð á skáldsögu F. Scott Fitzgerald.
Kvikmyndin The Great Gatsby er frumsýnd í kvikmyndahúsum annað kvöld. Myndin er byggð á skáldsögu F. Scott Fitzgerald.

The Great Gatsby segir frá Nick Carraway, fyrrverandi hermanni sem búsettur er á Long Island. Þegar hann kynnist efnuðum og dularfullum nágranna sínum, Jay Gatsby, flækist hann inn í heim þar sem ekkert er sem sýnist. Sagan gerist í skáldaða bænum West Egg á Long Island sumarið 1922.

Nick Carraway flytur í bæinn að stríði loknu og umgengst frænku sína, Daisy Buchanan, og eiginmann hennar Tom. Í gegnum þau kynnist hann Jordan Baker, efnilegum golfara, og hefja þau ástarsamband. Vinirnir sækja veislur sem hinn dularfulli nágranni Carraways, Jay Gatsby, heldur á heimili sínu. Fáir vita nokkur deili á veisluhaldaranum en í gegnum Baker kemst Carraway að því að Gatsby og Daisy voru eitt sinn ástfangin og með veislunum vill Gatsby reyna að vinna aftur ástir Daisy. Leonardo DiCaprio fer með hlutverk hins dularfulla Jays Gatsby, Tobey Maguire leikur Nick Carraway og Carey Mulligan fer með hlutverk Daisy Buchanan. Með önnur hlutverk fara Joel Edgerton, Elizabeth Debicki og Isla Fisher sem fer með hlutverk Myrtle Wilson, ástkonu Toms Buchanan.

Leikstjóri myndarinnar er hinn ástralski Mark Anthony „Baz“ Luhrmann, en hann er leikstjóri mynda á borð við Romeo + Juliet, Moulin Rouge og Australia. Kvikmyndin Romeo + Juliet frá árinu 1996 skartaði Leonardo DiCaprio og Claire Danes í aðalhlutverkum og vann BAFTA-verðlaunin það ár í flokknum besta leikstjórn, en stórmyndin Titanic var tilnefnd í sama flokki. The Great Gatsby fær 7,5 í einkunn á vefsíðunni Imdb.com og 50 prósent frá kvikmyndarýnum á Rottentomatoes.com. Áhorfendur eru þó töluvert jákvæðari í garð myndarinnar og gefa henni 84 prósent á Rottentomatoes.com.-


Tengdar fréttir

Taldi sig vera misheppnaðan höfund

Hinn mikli Gatsby er gjarnan talið öndvegisverk rithöfundarins F. Scott Fitzgerald. Verkið kom út árið 1925 og þykir áhrifamikil lýsing á velmegunartímanum fyrir kreppuna miklu og tekst á við spillingu og hnignun þess tíma, ofgnótt og ídealisma. Í dag er Hinn mikli Gatsby talið til helstu meistaraverka heimsbókmenntanna en bókin fékk heldur dræmar móttökur þegar hún kom fyrst út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.