Sjónvarpskonan Margrét Erla Maack er einna duglegust hér á landi við að tísta á vefsíðunni Twitter um Eurovision.
„Í undankeppninni var ég alveg tryllt en ég var aðallega að nota ummæli frá mömmu minni. Hún á það til að vera svolítið beitt,“ segir Margrét Erla aðspurð, en hún hefur mjög gaman af tístinu.
Ríflega 1.100 Íslendingar sendu hátt í 7.400 tíst í fyrra undir merkinu #12stig í kringum lokakvöld Eurovision en #12stig var óopinbert merki Íslendinga sem vildu ræða Eurovision á Twitter. Merkið varð til að tilstuðlan Vodafone og í þetta sinn er stefnan sett á að bæta Íslandsmetið í tísti.
„Það var talað um að Eurovision í fyrra hefði verið þegar Íslendingar lærðu á Twitter,“ segir Margrét Erla, sem segist sjálf örugglega hafa átt um fjögur hundruð af tístunum 7.400. „Ég var bæði dugleg og mjög fyndin. Þetta er líka liður í því að ég fái kannski einhvern tímann að fara sem lýsandi á Eurovision. Þetta er allt saman hluti af stóra planinu,“ segir hún hress.
Margrét ætlar að bjóða útvöldum vinum sínum í árlegt Eurovision-búningapartí á laugardaginn. „Ég býð fólki sem ég veit að er tilbúið að mæta í búningi. Í fyrra var ég rússnesk amma sem var tannlaus og núna verð ég í rosa flottum búningi.“
Alveg tryllt í Eurovision-tístinu
