Innlent

Sumarhúsin áður í eigu Björgólfs Thors

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Þingvallanefnd ætlaði árið 2009 að óska eftir skýringum á því að vegi í grennd við sumarhúsin hafði verið lokað með keðju. Fréttablaðið/vilhelm
Þingvallanefnd ætlaði árið 2009 að óska eftir skýringum á því að vegi í grennd við sumarhúsin hafði verið lokað með keðju. Fréttablaðið/vilhelm
Þingvallanefnd hefur keypt þrjá sumarbústaði af LBI hf., slitastjórn gamla Landsbankans, sem staðsettir eru í landi þjóðgarðsins á Þingvöllum. Samningar um þetta voru undirritaðir 29. apríl síðastliðinn en kaupverð var 34,5 milljónir króna.

Bústaðirnir voru áður í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Kristínar Ólafsdóttur, eiginkonu hans. Sumarhúsin þrjú, Gjábakkaland 1, 3 og 5, standa í landi jarðarinnar Gjábakka á austurbarmi sigdældarinnar við Hrafnagjá.

Húsin voru byggð á árunum 1967 og 1968 og hafa staðið ónotuð síðustu ár.

Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar, segir kaupin mikilvægan áfanga í uppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og í samræmi við stefnumörkun hans og tilmæli UNESCO. Í tilkynningu kemur fram að svæðið hafi mikla sérstöðu innan þjóðgarðsins og að fyrirhugað sé að þar verði upphaf gönguleiða og miðstöð annarrar útivistar í austanverðum þjóðgarðinum.

Í lok árs 2009 var sagt frá því í Fréttablaðinu að Þingvallanefnd ætlaði að óska eftir skýringum á því að vegi í grennd við sumarhúsin hefði verið lokað með keðju og almenningi bægt frá með skilti um að um einkaveg væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×