Lífið

Tónleikar í sænskri setustofu

Freyr Bjarnason skrifar
Árstíðir spiluðu í eftirlíkingu af sænskri setustofu.
Árstíðir spiluðu í eftirlíkingu af sænskri setustofu.
Hljómsveitin Árstíðir voru að ljúka þriggja vikna tónleikaferðalagi um Evrópu ásamt sænsku progg-þungarokkhljómsveitinni Pain of Salvation, sem Ragnar Sólberg leikur með, og hollensku söngkonunni Anneke Van Giersbergen.

Samtals spiluðu þau á átján tónleikum í ellefu löndum og voru m.a. haldnir tónleikar fyrir troðfullu húsi í París og London. Lokatónleikarnir voru í þýsku borginni Essen á sunnudaginn.

Með á tónleikaferðalaginu var sviðsmynd sem Daniel Gildenlöw, söngvari Pain of Salvation, lét útbúa sérstaklega fyrir túrinn. Hugmyndin að hönnun sviðsins var sótt aftur til áttunda áratugarins og var þar líkt eftir klassískri sænskri setustofu þar sem ávallt er von á því að gestir láti sjá sig án þess að gera boð á undan sér. Þannig var hefðbundin tónleikadagskrá brotin upp og meðlimir mismunandi sveita sameinuðu krafta sína í ólíkum lögum.

Árstíðamenn verða uppteknir við tónleikahald erlendis það sem eftir lifir af árinu. Á döfinni er önnur tónleikaferð um Mið-Evrópu í júlí þar sem þeir spila m.a. á þjóðlagahátíðinni TFF Rudolstadt í Þýskalandi sem er sú stærsta sinnar tegundar þar í landi. Auk þess hefur hljómsveitin verið bókuð á hátíðina NXNE (North by North East) í Toronto í Kanada í júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.