Innlent

Önnur hver kona í meðferð greinir frá kynferðisofbeldi

Svavar Hávarðsson skrifar
Konur, sem ánetjast áfengi, verða oft fyrir árásum kynferðisbrotamanna.
Konur, sem ánetjast áfengi, verða oft fyrir árásum kynferðisbrotamanna. Mynd/ Getty.
Greiningarviðtöl við rúmlega 4.100 einstaklinga sem hafa leitað sér lækninga hjá SÁÁ vegna áfengis- eða vímuefnavanda sýna að stór meirihluti þessa stóra hóps hefur verið beittur ofbeldi einhvern tímann á ævinni. Rúmlega önnur hver kona hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir tölurnar yfirgengilegar og tala sínu máli, en þær eru fengnar úr greiningarviðtölum (ASI-viðtöl). „Þetta kemur upp úr kafinu þegar fólk fær svigrúm til að ræða þessi mál. Málin eru jafn ólík og þau eru mörg; sum eru nýtilkomin og stundum er langt um liðið. Sumir segja þessar sögur frá uppvaxtarárum sínum,“ segir Þórarinn.

Tölurnar byggja á greiningarviðtölum við 2.850 karla og 1.249 konur sem leituðu sér lækninga hjá SÁÁ á árunum 2009 til 2011. Þar er leitað svara við því hvort einhver hafi einhvern tímann misnotað viðkomandi eða beitt hann ofbeldi. Þessu svara 83% kvenna og 59% karla játandi varðandi tilfinningalegt ofbeldi. Þegar líkamlegt ofbeldi á í hlut er það reynsla 64% kvenna; nær helmingur karlanna segir sömu sögu.

Á sjöunda hundrað konur af þeim 1.249 sem viðtölin náðu til hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi, eða 53%. Rúmlega tíundi hver karl segir frá kynferðislegu ofbeldi, eða 11% þeirra.

Þórarinn segir að þrátt fyrir að karlar hafi upplifað ofbeldi í mörgum tilfellum sé það ekkert í líkingu við það sem konur upplifa. „Konur hafa um langan tíma þurft að þola ofbeldi sem verður ekki borið saman við það sem karlar eru að upplifa, að mínu mati.“

Þórarinn slær varnagla við tölfræðilegum niðurstöðum eins og þessum. „Við vitum ekki hvað kemur á undan, ofbeldið eða neyslan, eða hvert orsakasamhengið er þarna á milli. Þessi mynd er afar flókin en þó er ljóst að þetta er reynsla sem eltir fólk. Svo verður að hafa hugfast að við vitum ekki hvað ofbeldi, af hvaða toga sem er, er algengt í okkar samfélagi. Við höfum því ekki þær tölur til samanburðar.“-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×