Skoðun

Skuldir í dag eru skattar á morgun

Heiðar Guðjónsson skrifar

Helsta auðlind Íslands er þjóðin sjálf. Öfugt við gömlu Evrópu, þar sem fleiri verða á eftirlaunum árið 2020 en vinna, er íslenska þjóðin enn að vaxa og dafna og vinnusemi landsmanna er mikil. Framtíðin stendur og fellur með því hvort svo verði áfram.



Íslenska ríkið er mjög skuldsett og skuldar um 2.100 milljarða króna. Mikið af þessum skuldum komu til við að greiða fyrir þjónustu og framkvæmdir sem ekkert nýtast komandi kynslóðum. Það má því segja að um sé að ræða skuldir sem eldri kynslóðir tóku, á kostnað hinna yngri. Skuldir ríkisins hverfa ekki, og ríki geta ekki farið á hausinn, heldur þarf við þjóðargjaldþrot að endursemja við kröfuhafa. Þannig voru skuldir Sovétríkjanna, eftir hrun þeirra, losaðar af Eystrasaltsríkjunum, Georgíu og Aserbaídsjan og Rússland tók þær yfir, eftir að endursamið hafði verið um fjárhæð og afborganir við lánardrottna. Enn eru útistandandi skuldir Napeóleons sem franska ríkið þarf að greiða af.



Skuldir í arf

Unga fólkið á Íslandi fær skuldir í arf. Þær nema um 21 milljón króna á hvern þeirra 100 þúsund einstaklinga sem eru á aldrinum 15-25 ára. Þetta eru skuldir sem þarf að greiða af í gegnum skatta. Þessi greiðslubyrði bætist á unga fólkið sem á þegar í erfiðleikum með að verða sér úti um heimili, sem kosta um það bil sömu fjárhæð. Unga fólkið er því að borga af tveimur húsum, ef svo má segja, þegar það flytur að heiman og fer að afla tekna. En annað húsið fær það aldrei að sjá eða koma í.



Í Evrópu og eldri samfélögum er ungt fólk farið að flytja annað, frekar en að taka á sig skuldabyrði eldri kynslóða. Það þarf að fyrirbyggja þá hættu hér á landi, það er frumskilyrði hagsældar á Íslandi.



Vefsíðan rikid.is er ný vefsíða Rannsóknarseturs um samfélags- og efnahagsmál. Þar getur fólk reiknað út skattbyrði sína og hlut í að greiða niður áfallnar skuldir á næstu árum. Eins er hægt að skoða ríkisreikninginn og skera niður, eða bæta við útgjaldaflokka, til að átta sig betur á því hvað fylgir því að vera skattborgari á Íslandi.



Það er von okkar að þessi vefur sé innlegg í upplýsta umræðu um ríkisfjármál á Íslandi. Sterkasta vopnið gegn umframkeyrslu stjórnvalda er að kjósendur veiti stjórnmálamönnunum aðhald. Þá er von til þess að loks fari einhverjir stjórnmálamenn að lofa því að spara en ekki bara að eyða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×