Innlent

Draga verður úr ábyrgð ríkisins

Íbúðalánasjóður skal starfa í almannaþágu. fréttablaðið/vilhelm
Íbúðalánasjóður skal starfa í almannaþágu. fréttablaðið/vilhelm
Draga þarf úr ábyrgð ríkisins á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs. Lagt er til að stofnaður verði heildsölubanki sem hafi með höndum það hlutverk að annast fjármögnun Íbúðalánasjóðs á markaði í samstarfi við Samtök fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóð og aðra hagsmunaaðila.

Þetta er meðal tillagna starfshóps Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs sem kynntar voru á ríkisstjórnarfundi í gær.

Starfshópurinn telur að Íbúðalánasjóður eigi áfram að starfa í almannaþágu. Það geri hann með útlánum til eigna undir skilgreindum verðmörkum. Jafnframt skuli sjóðurinn jafna aðgengi heimila í landinu að lánsfé á viðráðanlegum kjörum.

Starfshópurinn leggur til að stofnaður verði sjálfstæður heildsölubanki. Þannig megi bæta lánskjör lántakenda með aukinni samkeppni á útlánamarkaði auk þess sem dregið er úr ábyrgð ríkisins á framtíðarskuldbindingum Íbúðalánasjóðs þar sem sjóðurinn fjármagni sig á markaði í gegnum heildsölubankann.

Frá árinu 2007 til 2012 jókst rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs úr 945 milljónum króna í 2,7 milljarða. Eiginfjárhlutfall sjóðsins var um síðustu áramót 3,2% en langtímamarkmiðið er 5,0%.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×