Innlent

Glímum ekki við heilbrigðisvanda Grikkja

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Íslensk heilbrigðisstefna kemur vel út í alþjóðlegum samanburði. Fréttablaðið/Pjetur
Íslensk heilbrigðisstefna kemur vel út í alþjóðlegum samanburði. Fréttablaðið/Pjetur
Þrátt fyrir niðurskurð hafa hér ekki komið upp sambærileg heilbrigðisvandamál og í löndum á borð við Spán, Portúgal og Grikkland. „Þar hefur sjálfsvígstíðni farið vaxandi og smitsjúkdómar brotist út í síauknum mæli, auk þess sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefur versnað til muna,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir í nýrri grein á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Geir vitnar til nýlegrar fræðigreinar í vefútgáfu tímaritsins The Lancet, þar sem fjallað var um efnahagshrunið og áhrif þess á lýðheilsu. Greinarhöfundar bendi á að hér hafi félagslegt öryggisnet verið styrkt og áhersla lögð á að hafa fólk í vinnu, auk fleiri þátta. „Afleiðing þessa sé meðal annars að sjálfsvígum hafi ekki fjölgað á Íslandi í kjölfar kreppunnar og könnun á heilsu og líðan Íslendinga hafi sýnt að hrunið hafi lítil áhrif haft á hamingju þjóðarinnar,“ segir Geir.

Þá bendir landlæknir á niðurstöður nýbirtrar rannsóknar á árangri heilbrigðisstefnu í 43 Evrópuríkjum. Þar sé Ísland í þriðja sæti á eftir Svíþjóð og Noregi. Lakasta útkomu fengu Úkraína, Rússland og Armenía. Í samanburðinum er að mestu stuðst við gögn frá 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×