Innlent

Andstaða við Bjarnarflagsvirkjun

Magnús Þ Lúðvíksson skrifar
Landvernd telur óvissu vera um áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns. Umhverfismat vegna ráðgerðrar framkvæmdar er tíu ára gamalt.Fréttablaðið/GVA
Landvernd telur óvissu vera um áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns. Umhverfismat vegna ráðgerðrar framkvæmdar er tíu ára gamalt.Fréttablaðið/GVA
Meirihluti landsmanna er andvígur því að fleiri álver verði reist á Íslandi. Þá eru umtalsvert fleiri andvígir virkjunarframkvæmdum í Bjarnarflagi við Mývatn en eru þeim fylgjandi. Þetta leiðir skoðanakönnun Capacent Gallup í ljós sem unnin var fyrir Landvernd og var kynnt á aðalfundi félagsins á laugardag. Byggðu niðurstöðurnar á svörum 862 einstaklinga en alls var leitað til 1.450 við gerð könnunarinnar.

Reyndust 43,6% svarenda vera andvíg Bjarnarflagsvirkjun en 30,5% henni hlynnt. Ríflega fjórðungur svarenda var ekki viss. Þegar spurt var um afstöðu til byggingar fleiri álvera hér á landi sögðust 51,3% svarenda vera því andvíg en 30,9% voru því hlynnt.

Landsvirkjun ráðgerir að reisa 45 til 90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi en Bjarnarflag er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar.

Landvernd hefur að undanförnu gagnrýnt þessa fyrirhuguðu framkvæmd á þeim forsendum að óvissa sé um áhrif hennar á lífríki Mývatns. Umhverfismat vegna virkjunarinnar er orðið tíu ára gamalt og telur Landvernd að það þurfi að uppfæra. Félagið hefur því hvatt til þess að Bjarnarflag verði fært í biðflokk rammaáætlunar á meðan möguleg áhrif á lífríki vatnsins eru rannsökuð.

Þá hefur Landvernd efnt til undirskriftasöfnunar á netinu til að styðja við þessa kröfu. Í gærkvöldi höfðu ríflega 7.400 einstaklingar skrifað undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×