Innlent

Símhleranir sérstaks enn til rannsóknar

Hreiðar Már Sigurðsson og lögmaður hans, Hörður Felix Harðarson, eru ekki ánægðir með að símtöl þeirra á milli hafi verið að finna á meðal upptekinna símtala sem þeir fengu að hlýða á í húsakynnum saksóknara.
Hreiðar Már Sigurðsson og lögmaður hans, Hörður Felix Harðarson, eru ekki ánægðir með að símtöl þeirra á milli hafi verið að finna á meðal upptekinna símtala sem þeir fengu að hlýða á í húsakynnum saksóknara. Fréttablaðið/GVA
Lögreglumál Ríkissaksóknari rannsakar enn hvort rétt sé, og þá hvers vegna, sérstakur saksóknari hafi ekki eytt upptökum af samtölum Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, við verjanda sinn.

Verjandinn, Hörður Felix Harðarson, kærði málið til ríkissaksóknara 11. mars síðastliðinn. Gestur Jónsson og Ragnar Hall, verjendur tveggja annarra sakborninga í Al Thani-málinu svokallaða, Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, vöktu athygli á kærunni á blaðamannafundi sínum á mánudaginn var og létu fréttamönnum í té afrit af henni.

Á fundinum sögðu tvímenningarnir, sem nú hafa sagt sig frá Al Thani-málinu þrátt fyrir synjun dómarans þar um, að ekkert hefði heyrst frá Ríkissaksóknara í kjölfar kærunnar. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir hins vegar í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að málið sé enn til rannsóknar.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur ekki viljað tjá sig um málið við Fréttablaðið, og bent á að Al Thani-málið sé enn fyrir dómi og að á því stigi sé ekki rétt að ræða þessi mál í fjölmiðlum.

Sagt var frá því í febrúarlok að verjendur óttuðust margir að símtöl þeirra við skjólstæðinga sína væru hleruð. Sá ótti byggði á svari innanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um símhleranir. Ráðherrann leitaði upplýsinga hjá Ríkissaksóknara, sem hefur eftirlit með símhlerunum. Hann sagði að í sakamálalögum væri kveðið á um að „eyða skuli þegar í stað gögnum sem hafa að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×