Innlent

Fá veiðikortið fyrir nætureftirlit

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Samkomulag er um að herða eftirlit með stangveiði við Þingvallavatn til að útrýma veiðiþjófnaði, ólöglegum veiðiaðferðum og sóðaskap.
Samkomulag er um að herða eftirlit með stangveiði við Þingvallavatn til að útrýma veiðiþjófnaði, ólöglegum veiðiaðferðum og sóðaskap. Fréttablaðið/Pjetur
„Meirihlutinn í nefndinni er sammála því að gera þetta svona,“ segir Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, um samkomulag sem felur í sér að ekkert verður af banni við næturveiði í Þingvallavatni.

Samkomulagið sem Ólafur Örn Haraldsson gerði við Landssamband Stangaveiðifélaga, Stangaveiðifélag Reykjavíkur og Veiðikortið felur, að sögn Álfheiðar, í sér að þjóðgarðurinn leggur til 250-300 þúsund krónur til að taka upp lágmarksveiðieftirlit að næturlagi. Hún segir það fé verða tekið af 400 þúsund krónum sem áætlað sé að hækkun veiðileyfa skili.

Veiðimenn munu einnig leggja sitt af mörkum. Þannig hyggst Veiðikortið fá sjálfboðaliða til að sinna veiðieftirliti um nætur gegn því að fá ókeypis Veiðikort. „Þeir verða þannig hálfgerðir veiðiverðir með skírteini frá Veiðimálastjóra upp á að þeir megi trufla veiðimenn og biðja þá um veiðileyfi,“ segir Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri Veiðikortsins. „Veiðimenn eru vel sáttir og þetta er líka góð lending fyrir Þingvallanefnd.“

Álfheiður segir samkomulagið verða tekið fyrir á næsta fundi Þingvallanefndar sem stefnt sé á að verði næsta miðvikudag. „Ég er mjög ánægð með að hafa fundið svona mikinn skilning á þeim vanda sem er uppi við Þingvallavatn,“ segir Álfheiður og nefnir sérstaklega veiðiþjófnað og notkun ólöglegrar beitu sem þurfi að stöðva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×