Innlent

Vilja ríkislóðir fyrir leiguíbúðir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Formaður borgarráðs segir bæði ríki og borg eiga áhugaverðar lóðir fyrir leiguíbúðir í Reykjavík.
Formaður borgarráðs segir bæði ríki og borg eiga áhugaverðar lóðir fyrir leiguíbúðir í Reykjavík. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta er ekki það eina sem þarf að gera til að efla leigumarkaðinn en væri að okkar mati mjög áhugavert og mikilvægt verkefni til að byggja upp öruggan leigumarkað,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sem vill samstarf við ríkið um uppbyggingu öruggari leigumarkaðar í Reykjavík.

Samkvæmt tillögu sem borgarráð samþykkti í gær er markmiðið að ríkið leggi til lóðir innan borgarlandsins fyrir litlar og meðalstórar leiguíbúðir. Meðal reita sem litið er til eru Landhelgisgæslureitur, RÚV-reitur, Veðurstofuhæð, Sölvhólsgötureitur eða Laugarnes og lóð Sementsverksmiðjunnar í Elliðaárvogi. Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að leggja að lágmarki jafnmargar lóðir til verkefnisins.

„Ríki og Reykjavíkurborg eiga hvort um sig lóðir sem eru mjög áhugaverðar til að þróa í því skyni að byggja upp langtímaleigumarkað. Við sjáum fyrir okkur fjölbreyttar, litlar og meðalstórar íbúðir sem eru vel staðsettar með tilliti til samgangna,“ segir Dagur sem kveður hugmyndina þá að fá samstarfsaðila um fjármögnun og eignarhald í langtímaleigufélögum; aðila sem geti byggt hratt upp en átt þessar eignir áratugum saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×