Innlent

Lyfjakostnaður margra eykst

Svokölluð stjörnumerkt lyf verða ekki lengur að fullu niðurgreidd þegar breytingarnar taka gildi.
Svokölluð stjörnumerkt lyf verða ekki lengur að fullu niðurgreidd þegar breytingarnar taka gildi. Fréttablaðið/Pjetur
Kostnaður fjölda einstaklinga vegna lyfjakaupa breytist 4. maí þegar Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) taka í notkun nýtt greiðsluþátttökukerfi. Við breytingarnar lækkar kostnaður einstaklinga sem kaupa mikið af lyfjum en kostnaður fjölda annarra hækkar.

Nýja kerfið byggir á lögum sem Alþingi samþykkti í fyrra en markmið þeirra var að auka jafnræði milli lyfjakaupenda og tryggja að lyfjakostnaður lækkaði hlutfallslega hjá þeim sem þurfa að nota mikið af lyfjum.

Kostnaður SÍ vegna greiðsluþátttöku í lyfjakaupum breytist lítið sem ekkert við breytingarnar. Kostnaður einstaklinga breytist hins vegar í flestum tilvikum.

Eins og áður sagði munu þeir sem greiða mikið í lyfjakaup njóta góðs af breytingunum en þær fela meðal annars í sér að sett er þak á lyfjakostnað einstaklinga á hverju tólf mánaða tímabili.

Margir munu þó þurfa að greiða meira en áður, þar af sérstaklega tveir hópar. Í fyrsta lagi þeir sem eru með lágan lyfjakostnað á ári, miðað er við undir 24.075 krónur hjá almennum notendum og 16.050 krónur hjá börnum, ungmennum og lífeyrisþegum. Þessir hópar munu nú enga niðurgreiðslu fá.

Í öðru lagi er það nokkur hluti þeirra ríflega 30 þúsund lyfjakaupenda sem hafa notast við stjörnumerkt lyf sem hafa verið að fullu niðurgreidd. Þeirra á meðal eru glákulyf, sykursýkilyf og krabbameinslyf. Framvegis þurfa notendur þessara lyfja að taka þátt í kostnaði þeirra og mun kostnaður einstaklinganna því í mörgum tilfellum aukast.

Nálgast má upplýsingar um hvernig lyfjakostnaður hvers og eins breytist á vefsíðu SÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×