Innlent

Útlendingar keyra allt of hratt á Íslandi

Sveinn Kristján Rúnarsson verður með fyrirlestur á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem haldinn er á Hótel Sögu í dag.
Sveinn Kristján Rúnarsson verður með fyrirlestur á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem haldinn er á Hótel Sögu í dag.
Helmingur þeirra sem teknir eru fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunar á Hvolsvelli er erlendir ferðamenn, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á svæðinu.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki einkamál lögreglunnar. Það eru fjölmargir sem þurfa að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo hægt sé að snúa við þessari þróun. Það er mikilvægt svo koma megi í veg fyrir alvarleg slys,“ segir Sveinn.

Hann segir einnig mikla aukningu í umferðaróhöppum og að bregðast þurfi við vandanum strax.

„Við erum að sjá gríðarlega umferð af ferðamönnum og það held ég að eigi ekki síður við annars staðar á landinu.“

Engin skýring er að sögn Sveins á fjölda ökubrotanna. Ferðamennirnir bera þó margir fyrir sig þekkingarleysi. „Öðrum finnst hraðakstur ekki tiltökumál. Það fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir ástandinu sem getur skapast skyndilega á íslenskum vegum og mikilvægi þess að fara gætilega um náttúruna.“

Sveinn segir að vegna þessa sé mikið um útafakstur ýmist þar sem malarvegur hefst eða í hálku og slæmu skyggni.

„Sem betur fer er ekki mikið um stórslys vegna þessa en vissulega fylgir þessu aukið álag á lögregluna á svæðinu.“

Spurður hvað sé til ráða segir hann svarið einfalt. „Það þarf bara að ráðast í viðamikla fræðslu og betri merkingar. Ekki bara á íslensku.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.