Innlent

Tryggja þarf snurðulaust samstarf við heri

Brjánn Jónasson skrifar
Valgerður Bjarnadóttir
Valgerður Bjarnadóttir
Tryggja þarf að borgaralegar stofnanir hér á landi geti unnið snurðulaust með erlendum herjum að björgunarstörfum eða til að takast á við náttúruhamfarir þar sem slík mál eru almennt á höndum herja nágrannaríkjanna.

Þetta er meðal þess sem fjallað er um í skýrslu nefndar sem fjallað hefur um þjóðaröryggisstefnu Íslands síðustu mánuði. Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, segir almennt samstöðu innan hennar um flest mál. Skýrslan verður væntanlega afhent utanríkisráðherra fyrir kosningar.

Skýrslan verður ekki mikil að vöxtum, rétt rúmar tíu blaðsíður, en í henni verður ekkert óþarfa orðaskrúð, segir Valgerður. Utanríkisráðherra, eða arftaki hans eftir kosningar, mun svo nota skýrsluna sem grunn til að móta þjóðaröryggisstefnu Íslands.

Valgerður segir að lagt verði til grundvallar að Ísland sé herlaus þjóð sem grundvalli sínar varnir á gömlum stoðum; aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Þá verði lögð áhersla á málefni norðurslóða.

„Það hefur verið ágætis samstaða í nefndinni um hvaða atriði skuli leggja áherslu á,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í nefndinni. Hún á von á því að hægt verði að afhenda skýrsluna á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×