Innlent

Sprengja út prófatímann hjá Háskólanum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hús íslenskra fræða rís í nágrenni Þjóðarbókhlöðunnar þar sem stúdentar lesa til prófs.
Hús íslenskra fræða rís í nágrenni Þjóðarbókhlöðunnar þar sem stúdentar lesa til prófs. Fréttablaðið/Valli
„Auðvitað hefði verið æskilegt að þetta væri ekki beint í prófatíma,“ segir Sara Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, um áhrif fyrirhugaðra sprenginga í grunni Húss íslenskra fræða.

Boðað hefur verið að boranir og sprengingar hefjist í grunninum í dag og að þeim verði lokið 17. maí – viku eftir próflok í háskólanum. Sprengt verður milli klukkan sex og sjö síðdegis og 45 sekúndna löng hljóðmerki send út til viðvörunar fyrir hverja sprengingu.

Sara segist fyrst hafa frétt af málinu í gær og að það hafi ekki enn verið rætt í hópi stúdenta. „Það getur alltaf verið viss truflun af svona en þetta er kannski óhjákvæmilegt. Þetta er aðeins klukkutími á dag. Þeir virðast vera að gera þetta þegar flestir eru í matarhléi,“ bendir formaður Stúdentaráðs á.

Af tilkynningu vegna sprenginganna má ráða að þær verði ekki mjög látlausar en sagt er að óþægindum fólks verði haldið í lágmarki. „Við sprengingarnar kann að verða vart titrings í nálægum húsum og byggingum. Fylgst verður með sprengingum með skjálftamælum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×