Innlent

Vekur ótta að maðurinn sé laus

Stígur Helgason skrifar
Maðurinn býr á bæ á Snæfellsnesi þar sem talið er að misnotkunin hafi átt sér stað í marga áratugi.
Maðurinn býr á bæ á Snæfellsnesi þar sem talið er að misnotkunin hafi átt sér stað í marga áratugi. Fréttablaðið/GVA
Rúmlega áttræðum bónda af Snæfellsnesi, sem grunaður er um að hafa níðst kynferðislega á þroskaskertri stjúpdóttur sinni í fjóra áratugi, var sleppt úr gæsluvarðhaldi í gær.

„Þetta vekur ákveðinn ótta, það verður að segjast eins og er,“ segir María Magnúsdóttir, réttargæslumaður konunnar, um líðan skjólstæðings hennar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.

Maðurinn hefur setið í haldi síðan 15. mars. Varðhaldið yfir honum átti að renna út í dag en í gær var ákveðið að krefjast ekki framlengingar á því og sleppa honum úr haldi. Hann hefur setið í haldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna og að sögn Jóns S. Ólasonar, yfirlögregluþjóns á Akranesi, þótti ekki ástæða til að krefjast áframhaldandi varðhalds yfir honum á grundvelli almannahagsmuna.

Fullyrt var í fréttum í gær að nú væri í skoðun að krefjast nálgunarbanns gegn manninum, en María vill ekkert segja um það. „Þetta er mjög viðkvæmt mál og á mjög viðkvæmu stigi og við erum að skoða alla möguleika í stöðunni.“

Konan hefur borið að tveir bræður mannsins, sem nú eru látnir, hafi einnig misnotað sig. Annar þeirra bjó á bænum hjá gamla manninum þar sem misnotkunin á að hafa átt sér stað.

Konan eignaðist ófeðraða dóttur og hefur fyrrverandi maður dótturinnar, tengdasonur konunnar, viðurkennt að hafa brotið gegn konunni. Tekin hafa verið lífsýni úr gamla bóndanum vegna gruns um að hann kunni að vera faðir dótturinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×