Innlent

Kona kærði nauðgun í sameign fjölbýlishúss

Stígur Helgason skrifar
Maðurinn neitar alfarið sök en undi þó gæsluvarðhaldsúrskurðinum.
Maðurinn neitar alfarið sök en undi þó gæsluvarðhaldsúrskurðinum. Fréttablaðið/GVA
Karlmaður á sextugsaldri situr nú í gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglunnar á Akranesi grunaður um að hafa nauðgað konu á svipuðu reki aðfaranótt skírdags.

Fólkið þekktist ekki að neinu ráði fyrir atvikið en mun þó hafa verið að skemmta sér saman í bænum og vitni voru að samskiptum þeirra fyrr um kvöldið. Konan ber að allt hafi síðan farið úr böndunum um nóttina og maðurinn hafi nauðgað sér í sameign fjölbýlishúss.

Konan hlaut mikla áverka við aðfarirnar, brotnaði á öxl og marðist víða um líkamann. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins lagði hún ekki fram kæru fyrr en nokkrum dögum síðar og upphófst þá leit að manninum með aðstoð vitna. Hann var handtekinn fyrir síðustu helgi og úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins næstkomandi.

Maðurinn undi úrskurði Héraðsdóms Vesturlands þrátt fyrir að hafa staðfastlega neitað sök. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins kannast hann við að hafa haft samræði við konuna, en ber að það hafi verið með fullu samþykki hennar. Hann hefur hins vegar engar skýringar getað gefið á axlarbrotinu eða öðrum áverkum konunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×