Innlent

Sjö sjálfsvíg innan veggja fangelsa síðustu tuttugu ár

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Langflest sjálfsvíg áttu sér stað í fjölmennasta fangelsinu.
Langflest sjálfsvíg áttu sér stað í fjölmennasta fangelsinu.
fangelsismál Sjö fangar hafa framið sjálfsvíg innan veggja íslenskra fangelsa á síðustu tuttugu árum. Um er að ræða fanga á Litla-Hrauni og fangelsinu í Kópavogi. Þrír fangar hafa látist á sama tímabili af öðrum orsökum og gerir þetta því tíu andlát í allt.

Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun frömdu þrír fangar sjálfsvíg á Litla-Hrauni árið 1998, en tölurnar hafa hvorki orðið það háar fyrr né síðar. Langflest atvikin hafa átt sér stað þar, enda langfjölmennasta fangelsi landsins.

Íslensk fangelsismála- og heilbrigðisyfirvöld hafa lengi kallað eftir sértæku úrræði fyrir geðsjúka fanga sem þó hafa verið metnir sakhæfir. Síðastliðið fimmtudagskvöld svipti andlega veikur fangi á Litla-Hrauni sig lífi í klefa sínum, Þorvarður Davíð Ólafsson, sem var dæmdur til fjórtán ára fangelsisvistar árið 2011 fyrir tilraun til manndráps. Þorvarður veitti föður sínum, Ólafi Þórðarsyni, áverka sem drógu hann til dauða í nóvember 2010.

Ólafur komst aldrei til meðvitundar eftir árásina og lést tæpu ári síðar á Grensásdeild. Greint var frá því í Fréttablaðinu í nóvember að Þorvarður hefði verið nauðungarvistaður á Kleppi til að veita honum meðferð og komu þar fram gagnrýnisraddir frá yfirvöldum vegna þeirra vankanta á kerfinu að geta ekki sinnt veikum föngum nægilega vel.

Maður sem dvaldi á Litla-Hrauni með Þorvarði um tíma segir alla hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi verið alvarlega veikur. Fangarnir hafi tekið að sér eins konar sálgæslu fyrir Þorvarð, enda fá önnur úrræði í boði. Maðurinn gagnrýnir kerfið harðlega og segir ljóst í hvað stefndi í langan tíma, en lítið hafi verið að gert.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir brýnt að yfirvöld bregðist við þessum vanda sem yfirvöld standi frammi fyrir vegna sakhæfra, veikra fanga. Ýmis úrræði séu á teikniborðinu, en vonast sé til að fangelsið á Hólmsheiði muni koma til móts við skort á rými og þar með verði auðveldara að kljást við vandamál einstakra fanga. „Þetta er hugsun sem er á vinnsluborðinu, enda augljóst að svo þarf að vera,“ segir Ögmundur.

Á seinni hluta síðasta árs voru á bilinu fjórir til fimm fangar á Litla-Hrauni sem voru í raun of veikir á geði til að vera innan veggja fangelsisins. Greint var frá því í Fréttablaðinu í október. Þar sagði Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, að annaðhvort þyrfti sérálmu í fangelsi eða sérstaka deild á vegum heilbrigðisyfirvalda með fimm til tíu plássum, öryggisgæslu og sérhæfðari meðferð. Þá séu lyfjagjafir sérlega flóknar þar sem ekki sé hægt að neyða lyf ofan í einstaklinga án þess að svipta þá sjálfræði. „Þetta er eitthvað sem þarf að berjast fyrir,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×