Innlent

Varnarlaus gegn auðkennisþjófnaði

Sunna Valgerðardóttir skrifar
 Stór hluti þeirra gagna sem Þjóðskrá styðst við eru enn á pappír. Forstöðumaður stofnunarinnar kallar eftir heildarendurskoðun á skráningarkerfinu.
Stór hluti þeirra gagna sem Þjóðskrá styðst við eru enn á pappír. Forstöðumaður stofnunarinnar kallar eftir heildarendurskoðun á skráningarkerfinu. Fréttablaðið/Vilhelm
Íslenskar stofnanir skortir heimildir til að sannreyna auðkenni útlendinga sem flytjast hingað til lands. Forstjóri Útlendingastofnunar og forstöðumaður Þjóðskrár segja að íslenska þjóðin hafi hingað til verið auðtrúa í þessum málum og ekki hafi verið tekið nægilega hart á þeim möguleika að hingað komi fólk sem sé í raun ekki það sem það segist vera. Útlendingastofnun stendur nú í byrjunarviðræðum við Noreg varðandi samvinnu ríkjanna í skjalafölsunarmálum.

Engin lög til um kennitölur

Sólveig J. Guðmundsdóttir, forstöðumaður þjóðskrársviðs Þjóðskrár, bendir á að ekki sé til löggjöf um kennitölur en unnið er á grundvelli stjórnsýslulaga, laga um útlendinga og sérlaga eftir því sem við á. Öll mál eru unnin á sambærilegan hátt og skilgreindar kröfur lagðar til grundvallar.

Hún segir helming viðskiptavina Þjóðskrár á síðasta ári hafa verið erlenda ríkisborgara. Þörf sé á heildarendurskoðun á lögum um þjóðskrár- og almannaskráningu þar sem úthlutun og hlutverki kennitölu verði gerð skil. Málið hafi verið rætt við innanríkisráðuneytið um nokkurt skeið og þar ríki sameiginlegur skilningur á málinu.

Getur verið hættulegt fólk

Útlendingastofnun gefur út um 3.500 dvalarleyfi til erlendra einstaklinga á ári hverju. Kristín Völundardóttir, forstjóri stofnunarinnar, telur að um eitt prósent þeirra hafi framvísað fölsuðum skilríkjum en undirstrikar að það sé engin leið til að vita það þar sem heimildir og tækni skorti.

„Þetta er ekki stór hópur en hættan er sú að það geta verið hættulegir einstaklingar. Það er ástæða fyrir því að fólk er að þessu og við vitum ekki hver hún er. Auðvitað á enginn að komast upp með að leyna því hver hann er í raun,“ segir hún. „Við höfum verið svolítið auðtrúa í þessum málum en vandamálið hefur birst í meiri mæli á undanförnum árum. Nú er þetta augljóslega stærra vandamál sem þarf að glíma við og þess vegna verða að vera til úrræði.“

Lagaheimildir til bakgrunnsskoðana og staðfestingar vottorða eru mun rýmri í nágrannalöndunum eins og áður sagði og í því samhengi bendir Kristín á að sökum takmarkana hér á landi sé engin leið að synja gögnum frá ríkjum þar sem þekkt er að auðvelt sé að afla sér vel gerðra, falsaðra gagna.

Falsanirnar mjög góðar

„Noregur er með lög og reglugerðir þar sem segir skýrt og skorinort að ekki verði tekið mark á tilteknum gögnum frá tilgreindum ríkjum sökum þess að það er ekki hægt að treysta á að skjal sé ófalsað,“ segir hún. „Falsanirnar eru einfaldlega svo góðar.“

Útlendingastofnun er nú í byrjunarviðræðum við Norðmenn varðandi samstarf á þessu sviði og segir Kristín viðbrögð frændþjóðarinnar hafa verið jákvæð.

„Við höfum verið að leita eftir óformlegum leiðum hvort erlend sendiráð séu til í að starfa fyrir okkur og ætlum þá sér í lagi að skoða staðfestingar á DNA-prófum til að sannreyna skyldleika barna,“ segir hún. Þau gögn sem eru helst útsett fyrir að vera fölsuð eru fæðingarvottorð barna og fullorðinna, hjúskaparvottorð, fjölskylduvottorð, dánarvottorð, skilnaðarvottorð og sakaskrár.

Vilja fá að upplýsa lögreglu

Fram kemur í umsögn Þjóðskrár um frumvarp til laga um útlendinga í febrúar að stofnunin þurfi heimildir til að samkeyra upplýsingar um útlendinga í landinu, þá sér í lagi við gögn Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar. Einnig væri eðlilegt að Þjóðskrá hefði skyldu eða heimild til þess að afhenda eftirlitsstjórnvaldi eða lögreglu upplýsingar sem kunna að gefa til kynna lögbrot á sama hátt og Útlendingastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×