Innlent

Umdeildur vegur verður lagður

Svavar Hávarðsson skrifar
Nýtt vegarstæði hefur verið mjög umdeilt.
Nýtt vegarstæði hefur verið mjög umdeilt. fréttablaðið/vilhelm
Vegagerðin hefur ákveðið að semja við verktaka um lagningu umdeilds Álftanesvegar um Gálgahraun eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði frá kæru nokkurra íbúa við hraunið. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Þar sagði frá því að verkið hefði fyrst verið boðið út fyrir fimm árum en þá verið slegið af vegna hrunsins. Síðastliðið sumar fór Vegagerðin aftur af stað með útboð, með þeim rökum að umferðaröryggi kallaði á nýjan veg út á Álftanes. Síðan hafa tvö óskyld kærumál frestað framkvæmdum; meðal annars frá íbúum í hverfinu sem næst liggur hrauninu, en þeir töldu að framkvæmdaleyfi væri fallið úr gildi.

Íbúarnir stóðu ásamt samtökunum Hraunavinum jafnframt fyrir undirskriftasöfnun og mótmælafundum í haust og bentu á að vernda þyrfti hraunið.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nú vísað kæru íbúanna frá og telur þá ekki eiga lögvarða hagsmuni þar sem lóðum þeirra var úthlutað eftir að fyrir lágu upplýsingar um lagningu vegarins.

Fréttastofa Stöðvar 2 fékk þær upplýsingar frá Vegagerðinni í gær að ákveðið hefði verið að hefja viðræður við ÍAV, sem átti næstlægsta tilboðið í verkið, upp á nærri 800 milljónir króna.

Fulltrúar íbúanna sem kærðu íhuga næstu skref, sagði jafnframt í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×