Innlent

Hausafundur styrkir taflmannakenningu

Svavar Hávarðsson skrifar
The New York Times, The Scotsman og Daily Telegraph eru meðal miðla sem hafa fjallað um kenningu Guðmundar, og sýnir það hversu frægir gripirnir eru.
The New York Times, The Scotsman og Daily Telegraph eru meðal miðla sem hafa fjallað um kenningu Guðmundar, og sýnir það hversu frægir gripirnir eru.
„Þetta getur rennt stoðum undir þessa kenningu mína, en á hinn bóginn er allt eins líklegt að þessi fundur hafi nákvæmlega enga þýðingu í því samhengi. Það er ljóst að efniviðurinn var í landinu," segir Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi alþingismaður og forseti Skáksambands Íslands, um einstakan fund í fjöru á Snæfellsnesi. Guðmundur hefur sett fram þá kenningu að elstu taflmenn heims með nútímaútlit, Lewis-taflmennirnir, séu íslenskir að uppruna.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í vikunni fann Örn Erlendsson forstjóri þrjá rostungshausa og stakar rostungstennur í fjörunni við sumarhús sitt í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Taflmennirnir fundust hins vegar árið 1831 á skosku eyjunni Lewis. Þeir eru flestir skornir úr rostungstönn og taldir gerðir á árabilinu 1150 til 1200.

Lewis-taflmennirnir, eða listmunirnir sem margir telja réttnefni, eru sagðir vera dýrmætustu taflmenn sögunnar sem nú eru taldir meðal fimm merkustu forngripa í eigu Breska þjóðminjasafnsins. Lengi vel var því haldið fram að þeir hefðu verið gerðir í Þrándheimi.

Sumir fræðimenn Breska þjóðminjasafnsins telja ólíklegt að gripirnir geti verið af íslenskum uppruna, en vegleg bók um efnið kemur út seinna á þessu ári á vegum fornleifafræðinga hjá Skoska þjóðminjasafninu, þar sem kenningu Guðmundar er gert hátt undir höfði.

Guðmundur hefur sett fram þá kenningu að taflmennirnir hafi verið gerðir í Skálholti, og nefnt í því sambandi sem mögulegan höfund Margréti hina högu, sennilega fyrstu myndlistarkonu Íslands, og séu skornir úr rostungstönnum frá Grænlandi. Aðspurður segir Guðmundur að fundur eins og sá á Snæfellsnesi geti rennt stoðum undir það að efniviðurinn hafi verið til staðar, en aldursgreining mundi færa okkur nær sannleikanum. Að minnsta kosti sé ljóst að fundur sem þessi dragi ekki úr þeirri skoðun hans að rostungstennur hafi verið nýttar við útskurð og listsköpun á söguöld á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×