Innlent

Laga á stíginn upp á Esju

Óhemjumargir ganga á Esju á ári hverju, misvel búnir og í alls konar veðri. Nokkuð hefur verið um slys á fjallinu og getur þurft marga björgunarmenn til að bera niður einn slasaðan.Fréttablaðið/Pjetur
Óhemjumargir ganga á Esju á ári hverju, misvel búnir og í alls konar veðri. Nokkuð hefur verið um slys á fjallinu og getur þurft marga björgunarmenn til að bera niður einn slasaðan.Fréttablaðið/Pjetur
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur fengið leyfi fyrir endurbótum á Esjustíg. Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins, segir vilja standa til þess að byrja að laga stíginn strax í sumar. Það ráðist þó af því hvernig gangi að safna styrkjum.

Fjöldi fólks gengur á Þverfellshorn í Esju á ári hverju og segir Helgi það öryggisatriði að göngustígurinn verði sem best úr garði gerður.

„Umferðin þarna er alveg rosaleg og skiptir máli að gera þennan stíg þannig að björgunarsveitir geti tekið fólk þarna niður tiltölulega þægilega, það er nú eitt af stóru málunum,“ segir Helgi og bendir á að brenna vilji við að fólk gleymi því að það sé þarna að ganga á fjall og líti á Esjuna eins og hvert annað útivistarsvæði. „Ef einhver fótbrotnar, handleggsbrotnar eða dettur á höfuðið þá þarf að senda þarna upp á bilinu 20 til 30 manns til að sækja viðkomandi.“

Áætlað er að endurbættur stígur verði innan við tveggja metra breiður og að efni í hann verði sótt í nærliggjandi umhverfi þannig að hann falli sem best í það land sem hann liggur um.

Í greinargerð Skógræktarfélagsins um stíginn segir að reynt verði að fylgja núverandi gönguleið sem mest, en þó megi gera ráð fyrir að reynt verði að hliðra honum sem mest úr votlendissvæðum inn á þurrlendi og mela þar sem því verði við komið. „Þar er gert ráð fyrir blönduðum lausnum, að hluta til með því að „brúa“ votlendin með timburverki og að hluta með því að flytja í stígstæðið malarefni úr nærliggjandi melum,“ segir þar.

Helgi bendir á að Skógræktarfélagið sé meðal frjálsra félagasamtaka og er ekki með sérstaka tekjustofna til að vinna Esjustíg. „Við ráðgerum því að vinna þetta eftir því sem okkur tekst að fá styrki í verkið,“ segir hann.

Í gegnum tíðina hefur Pokasjóður verið einn öflugasti stuðningsmaður samtakanna. „Ég vona innilega að þeir veiti okkur myndarlegan styrk til að fara þarna í góða aðgerð í sumar. En ef við aftur á móti finnum engan pening í þetta þá gerum við ekki neitt.“

Nokkurn tíma tekur að byggja upp nýjan stíg og bendir Helgi á að víðar sé hægt að ganga á Esju en upp og niður á Þverfell. „Við höfum verið að myndast við að búa til gönguleiðakort af Esjuhlíðunum, en þær eru margar skemmtilegar aðrar.“

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×