Innlent

Náðu að frysta 18.100 loðnutonn

Svavar Hávarðsson skrifar
HB Grandi hefur mikil umsvif á staðnum og rekur þar nýtt uppsjávarfrystihús.
HB Grandi hefur mikil umsvif á staðnum og rekur þar nýtt uppsjávarfrystihús. Mynd/HB Grandi
Loðnuvertíðinni er lokið hjá HB Granda og skip fyrirtækisins náðu að veiða úthlutaðan kvóta í lok síðustu viku. Afli skipanna nam alls 86.150 tonnum. Alls nam framleiðsla á frystum loðnuafurðum á vegum HB Granda um 18.100 tonnum á vertíðinni.

Ingimundur Ingimundarson, rekstrarstjóri uppsjávarskipa HB Granda, segir í frétt frá fyrirtækinu að 5.500 tonn hafi veiðst af loðnu á vertíðinni fyrir áramót og þeim afla öllum verið landað á Vopnafirði. Þar af hafi 2.700 tonn verið fryst.

Góður stígandi var í loðnuveiðunum í byrjun ársins og aflinn til loka vertíðar nam tæplega 81.000 tonnum. Þar af var rúmlega 54.000 tonnum landað á Vopnafirði. Í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum voru alls fryst 13.500 tonn af heilli loðnu fyrir ýmsa markaði og rúmlega 600 tonn af loðnuhrognum. Til Akraness bárust þá 26.600 tonn og þar voru fryst tæplega 1.300 tonn af hrognum.

Heildarkvótinn á vertíðinni var 570.000 tonn. Þar af komu rúmlega 463.000 tonn í hlut íslenskra skipa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×