Innlent

Vill færa Þorláksbúð frá Skálholtskirkju

Þorgils Jónsson skrifar
Mikill styr stóð um byggingu Þorláksbúðar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hvetur til þess að gert verði samkomulag um að byggingin verði færð.
Mikill styr stóð um byggingu Þorláksbúðar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hvetur til þess að gert verði samkomulag um að byggingin verði færð. Fréttablaðið/Pjetur
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hvetur til þess í skýrslu sinni að samkomulag verði gert um að færa nýgerða yfirbyggingu yfir Þorláksbúð. Nefndin fjallaði um málið í kjölfar bréflegrar athugasemdar um ráðstöfun styrkja úr ríkissjóði til Félags áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar.

Yfirbygging rústanna við hlið Skálholtskirkju vakti nokkrar deilur, þar sem afkomendur arkitekts kirkjunnar töldu bygginguna skemma heildarmynd kirkjunnar.

Í skýrslu nefndarinnar er farið yfir athugasemdir um fjármál Þorláksbúðarfélagsins, meðal annars frá Ríkisendurskoðun, og deilur um skipulagsmál.

Segir nefndin að ef ný reglugerð hefði verið komin í gagnið áður en ráðist var út í framkvæmdir hefði verið unnt að koma í veg fyrir að byggingin hefði risið á þessum stað.

Ljóst sé að byggingin verði ekki fjarlægð úr þessu nema með dómi eða samkomulagi milli kirkjunnar og Þorláksbúðarfélagsins. Hvetur nefndin til að samkomulags verði leitað um að færa bygginguna.

Er Ríkisendurskoðun einnig hvött til að upplýsa hið fyrsta um það hvernig skattfé hefur verið varið til þessa verkefnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×