Innlent

Tók að sér ungling og misnotaði hann

Stígur Helgason skrifar

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær 51 árs mann, Ómar Traustason, í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa níðst kynferðislega á ungum pilti um margra mánaða skeið í upphafi þessarar aldar. Ómar hefur áður fengið dóm fyrir að misnota börn.

Ákæra á hendur Ómari var gefin út 6. júlí í fyrra. Í henni var honum gefið að sök að hafa, frá árinu 2000 og fram í nóvember 2001, misnotað piltinn reglulega á meðan hann bjó hjá honum á tveimur stöðum.

Pilturinn var á þessum tíma fjórtán og fimmtán ára gamall og hafði leitað til Ómars þegar fjölskylda hans varð húsnæðislaus. Pilturinn fékk húsaskjól hjá Ómari, bæði í Breiðholti og í Kópavogi, og mat og pening fyrir nesti í skólann, auk þess sem Ómar hélt að honum fíkniefnum, að því er segir í ákærunni.

Ómar notfærði sér síðan þessa yfirburðastöðu sína gagnvart piltinum, „vegna aldurs, reynslu og líkamlegra yfirburða“, og hafði ítrekað munnmök við hann á meðan hann svaf. Auk þess fékk hann piltinn einu sinni til að fróa sér og reyndi í eitt sinn að hafa við hann endaþarmsmök.

Ómar neitaði alfarið sök og sagði ekkert af þessu hafa átt sér stað. Engu að síður var hann sakfelldur fyrir alla liði ákærunnar, og flokkast brotin sem nauðgun og auk þess brot gegn barni sem hann hafði trúnaðarskyldum að gegna gagnvart.

Þolandinn, sem í dag er 26 ára, krafðist 2,7 milljóna í miskabætur vegna ofbeldisins. Ómar er dæmdur til að greiða honum tvær milljónir.

Ómar er búsettur í Danmörku og var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna í gær. Dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar en komi til afplánunar liggur ekki fyrir hvort Ómar muni sitja inni á Íslandi eða í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×