Innlent

Umhverfismat og þverun fjarðarins

Í mati á umhverfisáhrifum vegna Snæfellsnesvegar um Kolgrafafjörð, sem unnið var af Vegagerðinni, kemur fram að vatnsskipti fjarðarins hafi verið eitt af grundvallaratriðunum við hönnun vegarins.

Brúin er 230 metra löng með 150 metra löngu virku vatnsopi. Með svo langri brú töldu sérfræðingar á vegum Vegagerðarinnar það tryggt að sjávarföll yrðu nær óbreytt og áhrif brúarinnar á lífríki fjarðarins óveruleg.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins [nú Umhverfisstofnun] um umhverfismatið segir að umfjöllun um áhrif straumbreytinga í Kolgrafafirði hefði þurft að vera nákvæmari. Eins að stofnunin leggi til að lögð verði fram vöktunaráætlun vegna framkvæmdanna þar sem fylgst verði með hvaða áhrif þverun Kolgrafafjarðar hafi raunverulega í för með sér. Aldrei stóð hins vegar til að Vegagerðin myndi vakta breytingar á lífríki í sjó eða breytingar á fuglalífi, nema í ljós kæmi að mannvirkið hefði haft meiri áhrif á vatnsskipti í firðinum en reiknað hafði verið með.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar um umhverfismatið vegna framkvæmdarinnar segir að stofnunin fallist á fyrirhugaða lagningu vegarins „með því skilyrði að tryggt verði að því sem næst óbreytt vatnsskipti verði í Kolgrafafirði að loknum framkvæmdum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×