Innlent

Helmingsfækkun innbrota á tveimur árum

Brjánn Jónasson skrifar
Efling nágrannavörslu í borginni er meðal þess sem hefur fækkað innbrotum í borginni. 

fréttablaðið/anton
Efling nágrannavörslu í borginni er meðal þess sem hefur fækkað innbrotum í borginni. fréttablaðið/anton
Yfir 100 innbrot eru skráð hjá lögreglu í hverjum mánuði síðustu tólf mánuði. Innbrotunum hefur fækkað um helming á skömmum tíma, en þau voru um 200 á mánuði fyrir tveimur árum.

Samkvæmt samantekt Ríkislögreglustjóra voru 1.292 innbrot framin á tímabilinu frá mars 2012 út febrúar 2013. Á sama tímabili tveimur árum áður voru þau 2.698.

„Þetta er ágætis þróun sem var reyndar byrjuð fyrr," segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Hann segir þrennt skýra fækkunina. Lögreglan hafi frá árinu 2009 lagt mikla áherslu á að upplýsa innbrot og stöðva virkustu brotamennina, enda hafi reynslan sýnt að þeir beri ábyrgð á stórum hluta innbrota. Þá hafi breytingar á skipulagi lögreglunnar árið 2009 fært rannsókn brota nær vettvangi og leyft lögreglumönnum að sérhæfa sig í ákveðnum hverfum. Þriðja atriðið sé svo efling nágrannavörslu í borginni.

Eignaspjöllum hefur einnig fækkað, úr 2.906 fyrir tveimur árum í 2.034 nú, sem er um þriðjungs fækkun. Fjöldi líkamsárása hefur hins vegar verið svo til óbreyttur síðustu ár, um 1.100 á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×