Innlent

Loðnuvertíðin svo gott sem á enda runnin

Svavar Hávarðsson skrifar
Faxi var einskipa á miðunum og ekki vitað um önnur skip á útleið. mynd/hbgrandi
Faxi var einskipa á miðunum og ekki vitað um önnur skip á útleið. mynd/hbgrandi mynd/hb grandi
Loðnuvertíðinni er gott sem lokið, en rúmlega 96% af kvótanum hafði verið skráður veiddur hjá Fiskistofu á föstudaginn.

Aðeins eitt skip var á miðunum út af Svörtuloftum á Akranesi, Faxi RE og hafði náð 700 tonnum á rúmum sólarhring með ærinni fyrirhöfn.

Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa, þurfti ekki færri en 15-16 köst til að ná þessum afla. „Við vorum komnir á miðin í gærmorgun [fimmtudagsmorgun] og það er óhætt að segja að það hafi töluvert verið haft fyrir þessum afla. Í sumum köstunum var aflinn enginn en mest fengum við um 160 tonn í kasti. Þetta var mest hængur og hrygnd loðna en ekkert varð vart við hrognafulla loðnu," segir Albert en hann á von á því að með þessum síðasta túr Faxa sé loðnuvertíðinni formlega lokið.

Loðnukvóti HB Granda er allur kominn á land. Fyrirtækið gerði út þrjú skip, Faxa, Ingunni AK og Lundey NS, á loðnuveiðar framan af vertíðinni í vetur en eftir að aukið var við kvótann bættist Víkingur AK í hópinn.

Nú tekur við páskafrí en að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, verður næst hugað að kolmunnaveiðum í byrjun aprílmánaðar, segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×