Innlent

Sér ekki fram á gleðilega páska

Kristján Hjálmarsson skrifar
Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki út bætur og lífeyri fyrr en annan í páskum. Fréttablaðið/Rósa
Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki út bætur og lífeyri fyrr en annan í páskum. Fréttablaðið/Rósa
„Ég sé ekki fram á að geta haldið páska," segir Sherry Lynn Cormier, tveggja barna einstæð móðir, sem er 70 prósent öryrki.

Tryggingastofnun borgar ekki bætur fyrr en 1. apríl, annan í páskum, og því sér Sherry ekki fram á að geta haldið gleðilega páska. „Ég hef það af rétt fram yfir helgi, með einhverjum fimm þúsund kalli, og það eru margir sem ég hef talað við sem eru í sömu stöðu. Launin okkar eru nógu lág fyrir," segir hún.

Á heimasíðu Tryggingastofnunar segir að lífeyrir og bætur fyrir apríl verði greiddar út 1. apríl og er vísað í 54. grein laga um almannatryggingar þar sem segir að greiða skuli út bætur fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar.

„Vissulega verðum við vör við þessar raddir hjá okkar skjólstæðingum," segir Hildur Björg Hafstein, kynningarfulltrúi hjá Tryggingastofnun. „Ef greitt væri út fyrir páska yrði lengra í næstu mánaðamót og spurning hvaða hjálp væri í því. Flestir launþegar í landinu fá launin sín greidd eftir á. Þeir sem eru með lífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun fá hins vegar mánuðinn fyrir fram. Við greiðum alltaf aðfaranótt fyrsta hvers mánaðar, hvort heldur um frídag er að ræða eða ekki, og þá þegar hafa lífeyrisþegar aðgang að sínum greiðslum í gegnum sinn heimabanka," segir Hildur og segir stofnunina starfa eftir lögum.

Tryggingastofnun greiðir út á sjöunda milljarð króna um hver mánaðamót til hátt í sextíu þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×