Innlent

Fjöruferð gaf tennur og hausa af rostungi

Svavar Hávarðsson skrifar
Stærsti hausinn er af fullorðnu dýri og er vel á annan tug kílóa.
Stærsti hausinn er af fullorðnu dýri og er vel á annan tug kílóa.
„Ég og synir mínir vorum að ganga á ströndinni þegar við hnutum um heilan rostungshaus með tveim tönnum. Eitthvað fórum við að snuðra þarna um og þá fann ég stóra tönn og bráðlega annan haus, aðeins minni, og svo þann þriðja," segir Örn Erlendsson, forstjóri Triton, sem fann þrjá rostungshausa og stakar rostungstennur í fjörunni við sumarhús sitt í Staðarsveit á Snæfellsnesi í apríl 2008.

Örn segir að innan um rostungshausana hafi verið þó nokkuð af hvalbeini. Það segir hann ekki óalgengan fund í fjörunni í Staðarsveit en rostungshausa, eða tennur, hefur hann ekki fundið fyrr eða síðar. Hann segir að tíu dögum fyrir fundinn hafi gert sunnan og suðvestan rok ofan í stórstraum. „Það virðist sem þessu hafi skolað á land í óveðrinu á afmörkuðu svæði," segir Örn.

Fundur sem þessi sætir tíðindum og er jafnvel einstakur á Íslandi. Rostungstennur voru nefndar fílabein norðursins fyrr á tíð, svo verðmætar voru þær. Tennur frá Grænlandi voru taldar gersemi og þóttu gjaldgengar sem gjafir til konunga á miðöldum.

Eftir því sem næst verður komist er sjaldgæft að rostungstennur finnist hérlendis, hvað þá vel tenntar hauskúpur, fleiri en ein. Þær finnast þó annað slagið og helst á Snæfellsnesi. Eins hafa fundist tennur við fornleifauppgröft, eins og í skálanum í Aðalstræti í Reykjavík á sínum tíma.

Örn segir að líffræðingar hafi ekki rannsakað tennurnar til að freista þess að skýra gátuna um fundinn. „En ég var svo upprifinn eftir að ég fann þetta að ég hafði samband við Náttúrufræðistofnun. Það var haft á orði að mjög kostnaðarsamt væri að aldursgreina þetta og þeir væru peningalitlir. Það var ekki sóst eftir því að líta á þetta hjá mér," segir Örn.

Hann segist ekki hafa gert frekari tilraunir til að koma gripunum í hendur sérfræðinga, heldur gert aðrar ráðstafanir. „Ég setti þá á statíf og gaf sonum mínum þessa gripi. Þeir hafa hausana til skrauts í stofunni hjá sér," segir Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×