Skoðun

Forgangsröðum á heillavænlegan hátt

Karólína Stefánsdóttir skrifar
Á dögunum sendi samráðshópur Fjölskylduráðgjafar og Nýja barnsins á Heilsugæslustöðinni á Akureyri ákall til ráðamanna um að efna gefin heit og efla þjónustuna. Fjölskylduráðgjöfin hefur búið við allt of þröngan stakk í mörg ár og sætt niðurskurði eftir hrun, sem hefur bitnað illa á notendum þjónustunnar, foreldrum og börnum þeirra. Þetta er sérlega alvarlegt þegar það kemur niður á þeim verðandi og nýorðnum foreldrum sem eru að takast á við erfiða líðan eða þung áföll. Þar getur skortur á stuðningi haft afdrifarík áhrif á tengslamyndun við barnið og framtíðarheilsu þess og fjölskyldunnar. Á sama tíma heyrum við í fjölmiðlum áköll úr ýmsum áttum, frá einstaklingum, foreldrum, stofnunum og hjálparsamtökum um að leysa bráðavanda barna og fullorðinna með geðraskanir og efla forvarnir gegn ofbeldi, misnotkun og vanrækslu.

Við viljum fylgja þessu ákalli samráðshópsins eftir og vekja athygli á hve brýnt það er að við, fagfólk, fjölmiðlar, stjórnvöld og fólk sem vill láta sig málið varða, eflum umræðuna og aukum skilning á samhengi þessa vanda og skoðum hvernig við markvisst getum eflt fjölskyldu- og geðvernd, samtímis því að við tökumst á við bráðavanda.

"Engin einstök forvörn er jafn öflug og stuðningur við foreldra," segir Sæunn Kjartansdóttir í bók sinni Árin sem enginn man – Áhrif frumbernskunnar á börn og fullorðna. Höfundur segir á ljósan hátt frá nýlegri þekkingu og rannsóknum á áhrifum tilfinningatengsla á vöxt heilans og hve hin fyrstu tengsl hafa gríðarmikil áhrif á þroska okkar og framtíðarheilsu. Hún lýsir líka vel hvernig afneitun eða bæling innri sársauka veldur mestri hættu á að fólk komi illa fram við eða meiði aðra. Við tökum undir með henni að einmitt þess vegna "er góð tenging fólks við tilfinningar sínar öflugasta forvörn gegn ofbeldi og vanrækslu sem til er." Við vísum sérstaklega í þessa bók þar sem við teljum hana í senn gott innlegg í umræðuna og gagnlega foreldrum.

Við sem vinnum með fjölskyldutengsl og forvarnir sjáum hve mikilvægt það er að fólk horfi á líf sitt í samhengi tengsla og sögu og læri að hlusta eftir innri styrk og vitund um mátt tengslanna, til að takast á við áföll, erfiðar tilfinningar og ótta. Þannig getum við saman byggt upp heilbrigð tengsl og betri framtíðarsögu.




Skoðun

Sjá meira


×