Skoðun

Hvers konar vitleysa er í gangi?

Ásdís Ólafsdóttir skrifar
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á 1.071 fundi sínum að allir skólar og leikskólar í Kópavogi skulu hafa sömu starfsdaga næsta vetur. Hvers konar vitleysa er í gangi?

Í fyrsta lagi stendur í 29. grein grunnskólalaga að skólanámskrá og starfsáætlun séu í ábyrgð skólastjóra í samráði við kennara. Skólanefndin á því að staðfesta það sem skólastjórar og kennarar ákveða en ekki öfugt og sjá hvort farið sé eftir grunnskólalögum.

Bæjarstjórnin í Kópavogi hefur greinilega ekki hugsað málið til enda. Ætlast þeir til þess að kennarar og leikskólakennarar, sem eiga börn í leikskólum bæjarins, taki börnin með sér í vinnuna á starfsdögum skólanna? Ætlar bæjarstjórnin kannski að sjá um pössun á meðan?

Bæjarstjórnin gerir kannski ekki ráð fyrir því að grunn- og leikskólakennarar eigi börn í vistun á leikskólum bæjarins?

Væri ekki réttara að hver og einn skóli/leikskóli ákveði sína starfsdaga eftir þörfum eins og stendur í lögunum?

Áherslur eru nefnilega mjög mismunandi eftir skólum/leikskólum hvenær hentugast er að taka starfsdagana og það kæmi líka í veg fyrir árekstra.

Kópavogsbær hefur hingað til státað sig af sjálfstæðum skólum en þessi ákvörðun bæjarstjórnar virðist vera skref í þveröfuga átt.

Ef þetta á að ganga eftir þá hvet ég alla grunn- og leikskólakennara til þess að vera heima ef þeir eiga börn á leikskólum því ekki koma þeir með börnin í vinnuna á starfsdegi.

Ég velti því líka fyrir mér hvað kemur næst?

Skyldi bæjarstjórn líka vilja ákveða hvenær við fáum matartíma?

Væri ekki viturlegra fyrir bæjarstjórnina í Kópavogi að láta okkur fagfólkið sjá um skólamálin og huga frekar að uppbyggingu bæjarins á öðrum sviðum á meðan?




Skoðun

Sjá meira


×