Skoðun

Bæjarstjóri á villigötum

Kristján Pálsson skrifar
Bæjarstjórinn í Grindavík ritar grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hann boðar að slíta beri samstarfinu um Reykjanesfólkvang. Bæjarstjórinn telur sig með þessu vera að styrkja Reykjanesjarðvang (geopark) sem nýstofnaður er á Reykjanesi. Það er mikill misskilningur hjá bæjarstjóranum að halda að þessi ráðstöfun styrki jarðvanginn. Fljótfærnisleg aðgerð af þessu tagi getur þvert á móti spillt fyrir því að jarðvangurinn verði viðurkenndur. Þetta getur einnig spillt fyrir ferðaþjónustunni þegar til lengri tíma er litið og um leið veitt náttúruvernd á Reykjanesinu náðarhöggið.

Reykjanesfólkvangur

Fólkvangurinn var stofnaður árið 1975 af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu ásamt Grindavík og Reykjanesbæ. Reykjanesfólkvangur er stærsta friðlýsta svæði landsins um 300 km² og er unnið að því að Bláfjallafólkvangur og Herdísarvík bætist við og stækkar hann þá um 100 km². Grindvíkingar sýndu mikla framsýni þegar þeir tóku þátt í stofnun fólkvangsins á sínum tíma. Af náttúrufyrirbærum innan Reykjanesfólkvangs eru m.a. Kleifarvatn, Seltún, Krýsuvíkurberg, Vigdísarvellir og Móhálsadalur.

Fólkvangur er næsta stig við þjóðgarð varðandi náttúruvernd og er munurinn sá að fólkvangar eru ekki með eins ströng ákvæði í lögum um verndun náttúrunnar og þjóðgarðar en hafa þó sama tilgang, að vernda einstaka náttúru landsins. Jarðvangar (geoparks) eru ekki til í íslensku lagaumhverfi og fela því ekki í sér neina náttúruvernd. Þjóðgarðar og fólkvangar (nature reserves) eru á heimsvísu með þá ímynd að þar sé eitthvað mjög einstakt sem heimamenn vilja vernda og ferðamenn telja þess virði að sjá og upplifa. Eins og flestir vita þá koma um 75% allra erlendra ferðamanna til landsins til að upplifa óspillta náttúru Íslands.

Reykjanes geopark

Ferðamálasamtök Suðurnesja (FSS) lögðu til fyrir nokkrum árum að stofnaður yrði geopark á Reykjanesi til að styrkja stoðir ferðaþjónustunnar, auka fjölbreytileikann og opna fyrir nýja markaði ferðamanna. Með stofnun geoparksins var hugmyndin að beina sjónum ferðamanna að menningu Suðurnesjanna, atvinnu og þjónustu samhliða því að draga fram jarðfræðilegan einstakleika.

Suðurnesin búa yfir mikilli sérstöðu hvað varðar atvinnulíf, nálægð við háhita og virkjanir, menningu og jarðfræðilegan einstakleika þar sem Reykjaneshryggurinn gengur á land og upphaf rekbeltisins er sem sker Ísland í tvo fleka. Geoparkar eru orðnir nærri 100 um heiminn og eru þeir af öllum stærðum og gerðum. Sumir þeirra ganga inn á fólkvanga sem þykir styrkja tilvist og ímynd þeirra hvað varðar náttúruvernd. Fólkvangar geta verið innan borgarmarka og má í því sambandi nefna Hong Kong sem hefur fengið viðurkenningu sem geopark vegna sérstöðu borgarinnar og einstakra jarðminja við hana.

Fljótræði

Bæjarstjórinn sagði á fundi með stjórn fólkvangsins fyrir stuttu um þetta mál að Grindvíkingar vildu hafa yfirráðin yfir svæðinu austan Grindavíkur og teldu sig geta stjórnað því svæði rétt eins og Reykvíkingar sem ættu lítið land í fólkvanginum, hvað þá sveitarfélög sem ættu ekkert land eins og Reykjanesbær.

Það er ekki mikil framtíðarsýn í þessum orðum bæjarstjórans. Hugsunarháttur á því plani að rjúfa tengsl og slíta samvinnu er fljótræði og hjálpar ekki ferðaþjónustunni né því að fá viðurkenningu á Reykjanesjarðvangi sem geopark hjá Europian Geoparks og UNESCO. Sama má segja um þá ákvörðun bæjarstjórans að aflýsa ráðstefnu um geoparka sem halda átti á Reykjanesi í ágúst nk.




Skoðun

Sjá meira


×