Skoðun

Sveigjanleg starfslok

Rannveig Sigurðardóttir skrifar
Hver launamaður á að hafa val um hvenær og hvernig hann nálgast sín starfslok, það eru sjálfsögð mannréttindi. Vinna hluta úr viku, hluta úr ári eða trappa sig út af vinnumarkaðnum með til dæmis 10% minnkun vinnu á hverju ári eftir sextugt án skerðingar á launum svo eitthvað sé nefnt. Launamaður sem verið hefur meginþorra ævinnar á vinnumarkaði er dýrmætur starfsmaður síns atvinnurekanda. Fjársjóður sem leitað er til, reynslubolti sem þekkir allt og getur miðlað af sinni miklu reynslu.

Nú þegar lífaldur Íslendinga fer hækkandi, ellilífeyrisþegum fjölgar og byggja þarf fleiri hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir er rétt að vekja athygli á sveigjanlegum starfslokum. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru rúmlega 1.900 manns 71 árs, en þeir sem nú eru 56 ára eru um 4.000, það er tvöföldun í þeim árgöngum.

Við stöndum frammi fyrir því að við munum fá tvöfalt fleiri ellilífeyrisþega inn í kerfið eftir 15 ár. Kerfið gengur einfaldlega ekki upp. Þeir sem hafa verið skynsamir og greitt til lífeyrissjóða alla sína starfsævi verða fyrir tekjuskerðingu hjá almannatryggingakerfinu vegna þess. Þegar séreignasparnaður kom til eygði launamaðurinn von um að geta sparað meira til elliáranna eða farið fyrr á eftirlaun, en því miður hafa margir þurft að eyða þessum ævisparnaði til að greiða niður skuldir vegna hrunsins 2008.

Margir launamenn hafa verið ósáttir í gegnum tíðina við að fá ekki að vinna lengur en til 67 ára eða 70 ára aldurs, þó við hestaheilsu séu. Eiga þeir þá samkvæmt lögum að hætta á almennum vinnumarkaði. Sumir vilja hætta fyrr, jafnvel um 60 ára aldurinn.

Brýnt að ræða

Sveigjanleg starfslok eru málefni sem brýnt er að ræða. Til að svo verði þurfa allir sem að málinu koma að huga að því hvernig breyta megi almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfinu og lögum sem að vinnumarkaði lúta. Vilji fólk hætta á vinnumarkaði fyrir 67 ára aldur er það ekki komið á löggildingaraldurinn til að hefja töku lífeyris og verður því fyrir skerðingu.

Ef við höfum hins vegar heilsu og getu til að starfa lengur koma skerðingarnar inn í allt í kerfinu sem nú er við lýði og okkur er nánast bannað að vinna eftir að sjötugsaldri er náð.

Það var vel þegar fyrirtæki auglýstu eftir starfsmönnum með lífsreynslu til starfa. Fólk sem komið var af léttasta skeiði lífsins fékk nú aukin tækifæri til að vera lengur á vinnumarkaðnum. Þessum fyrstu skrefum í átt að vali til breyttra starfsloka virðist því miður ekki hafa verið fylgt eftir.

Hvað er til ráða? Fyrst og fremst að hefja umræðuna, skoða allar hliðar málsins og kynna loks fyrir vinnumarkaðnum vel mótaðar tillögur. Fá þingmenn og almenning í lið með sér til að breyta lögum um höft til vinnu og/eða opnun á að hætta að vinna fyrr en lög lífeyrissjóðanna, kjarasamningar og almannatrygginga segja til um.

Að þessum málum viljum ég, sem frambjóðandi til stjórnar VR, og Ólafía B. Rafnsdóttir, frambjóðandi til formanns VR, vinna saman og í samvinnu við sem flesta.




Skoðun

Sjá meira


×