Skoðun

Kjósum nýjan formann í VR

Eyrún Ingadóttir skrifar
Þessa dagana stendur yfir kosning til stjórnar VR en þar er kosið um formann á tveggja ára fresti. Þá þarf sitjandi formaður að leggja störf sín í dóm félagsmanna og endurnýja umboð sitt.

Annað af tveimur formannsefnum að þessu sinni er Ólafía B. Rafnsdóttir og ég vona að hún fái brautargengi til þess að verða fyrsta konan í sæti formanns VR í 122 ára sögu þess.

Ólafía hefur margt til brunns að bera. Hún fór snemma út á vinnumarkaðinn, hóf á fimmtugsaldri að mennta sig og nýta þau tækifæri sem fullorðnum bjóðast til að auka starfshæfni sína. Hún þekkir hvernig það er að láta enda ná saman á þeim launatöxtum sem samið er um í kjarasamningum og hefur alltaf þurft að berjast fyrir sínu. Ólafía er ákaflega geðþekk og kann að vinna með fólki. Hún mun vafalaust laða fram það besta í starfsfólki og stjórnarmönnum VR.

Síðastliðin tvö ár hef ég setið í stjórn VR, þar af sem varaformaður síðasta starfsár. Á þessum tíma hefur verið mjög vel starfhæf stjórn sem skapast fyrst og fremst af þeim einstaklingum sem þar hafa setið. Hið mikilvæga starf sem unnið er hjá VR er borið uppi af þeim 50 starfsmönnum sem þar starfa en það er svo framkvæmdastjóra að sjá um daglega stjórnun og formanns og stjórnar að marka stefnu og strauma.

Formaður og stjórn þurfa alltaf að „vera á tánum“ því reglulega eru störf þeirra lögð í dóm félagsmanna. Ég skora á félaga í VR að nýta kosningarétt sinn og kjósa Ólafíu B. Rafnsdóttur sem næsta formann.




Skoðun

Sjá meira


×