Skoðun

Tækifæri til samráðs

Erna Indriðadóttir og starfsmaður Alcoa Fjarðaáls skrifa
Árni Páll Árnason hét því þegar hann var kjörinn formaður Samfylkingarinnar að leita leiða til að auka sátt og samráð í samfélaginu. Það er ánægjulegt að sjá að nokkrum vikum síðar einhendir hann sér í að leysa stjórnarskrármálið sem komið var í sjálfheldu vegna tímaskorts og kallar þar fulltrúa allra flokka að borðinu.

Það hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess á síðustu árum, að draga úr átökum og leita samvinnu þvert á flokka um stærri mál. Nú er tækifæri. Formenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna hafa lagst á eitt til að stuðla að því að stjórnarskrármálið fái farsæla lausn og formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa enn tíma til að sýna í verki að þeir hafi raunverulega áhuga á að ná sátt um stór ágreiningsmál.

Það er afar mikilvægt að því merka starfi sem unnið var af stjórnlagaráði, verði tryggt framhaldslíf á næsta þingi. Það kom skýrt fram í þeirri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór, að menn vilja að vinnu við nýja stjórnarskrá verði haldið áfram á grundvelli þeirra tillagna sem ráðið lagði fram. Um það er ekki deilt. Sérstaklega var mikill stuðningur við ákvæði um að auðlindir okkar séu þjóðareign og ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Árni Páll á heiður skilið fyrir að berjast fyrir því að vinna við nýja stjórnarskrá haldi áfram en dagi ekki endanlega uppi á því þingi sem nú situr.




Skoðun

Sjá meira


×