Skoðun

Blóðgjafar þurfa frí frá vinnu til að gefa

Jórunn Frímannsdóttir og deildarstjóri blóðsöfnunar skrifa
Samtök atvinnulífsins ákváðu að leggja Blóðbankanum lið með vakningarátaki um mikilvægi þess að gefa blóð og geta fengið að skreppa frá vinnu til þess.

Auglýsingar átaksins ganga út á að höfða til atvinnurekenda með því að birta myndir af forstjórum að gefa blóð með textanum „Brettum upp ermar – gefum blóð".

Með þessu eru þeir ekki síst að leggja okkur lið með því að höfða til atvinnurekenda í því tilliti að blóðgjafar þurfa frí til þess að geta gefið blóð.

Blóðgjafar nýta oft hádegishlé sitt til að koma að gefa blóð og draga þannig úr fjarveru frá vinnu.

Þess vegna er oft mikið álag í hádeginu og biðtími blóðgjafa verður óviðunandi langur. Það er hins vegar ekki viðunandi fyrir blóðgjafa að þurfa að bíða lengi eftir því að komast að og í raun tapa allir á því. Einstaklingurinn er mun lengur frá vinnu en hann annars þyrfti að vera og blóðgjöfin verður stress en ekki afslöppun eins og hún á að vera.

Bókaðir tímar í blóðgjöf

Til þess að reyna að mæta þessu og ná betra jafnvægi í biðtíma, innkomu blóðgjafa, lagerhaldi og mönnun höfum við hjá Blóðbankanum ákveðið að taka upp bókanir blóðgjafa í miklu meira mæli.

Til að byrja með mun blóðgjafinn geta valið um hvort hann bókar sig í blóðgjöf, en blóðgjafar sem eiga bókaðan tíma munu ganga fyrir öðrum. Stefna okkar er hins vegar sú að fara að mestu leyti yfir í að bóka tíma. Í nágrannalöndum okkar hafa blóðgjafar bókað sér tíma í blóðgjöf til nokkurra ára. Með nýju tölvukerfi getum við haldið utan um bókanir og sent blóðgjöfum áminningu daginn áður en hann á að mæta.

Með þessu móti mun blóðgjafi geta gert ráð fyrir því að þurfa ekki að bíða lengi eftir viðtali og blóðgjöfinni sjálfri sem tekur um 10 mínútur og svo er auðvitað nauðsynlegt að gefa sér aðeins tíma á kaffistofunni okkar eftir blóðgjöfina og fá sér eitthvað gott að borða, lesa blöðin, hlusta á útvarpið og spjalla við aðra blóðgjafa. Þannig á heimsóknin til okkar ekki að þurfa að taka meira en 30-40 mínútur og allt á að geta verið afslappað og þægilegt.

Bókaðu tíma með því að senda okkur póst á www.blodbankinn.is eða hringdu í okkur í síma 543-5500.




Skoðun

Sjá meira


×